Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að á sónarmyndinni sjáist myndform sem mögulega geti verið útlínur mannslíkama og þykir því nauðsynlegt að kanna málið nánar. Vegna þessa má búast við auknum aðgerðum á vatninu um tíma.
„Aðstandendur hafa verið upplýstir um stöðu mála og að atvik sem þessi muni koma upp á næstu dögum ef sónarmyndir gefa tilefni til þess að eitthvað sé skoðað nánar.“
Greint var frá því fyrr í dag að flak flugvélarinnar TF-ABB, sem fannst á botni Þingvallavatns á föstudag, væri mjög heillegt. Skoðun kafara í gær leiddi í ljós að enginn þeirra fjögurra farþega sem voru um borð í vélinni er inni í flakinu.
Í kapphlaupi við tímann
Allt bendir til að flugvélin hafi hafnað á Þingvallavatni áður en hún sökk og þeir fjórir sem voru um borð hafi komist út úr henni af sjálfsdáðum eftir að hún endaði á vatninu.
Leit hófst að flugmanninum og þremur erlendum ferðamönnum, sem voru farþegar hans, í birtingu í morgun. Fjölmennt lið lögreglu- og björgunarsveitarfólks ásamt séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar tekur þátt í leitinni.
Leitarfólk er í kapphlaupi við tímann þar sem ofsaveðri er spáð á svæðinu og um land allt í nótt. Leitað er að fólkinu við vatnið, á því og á botni þess með kafbáti.