Árlega voru að meðaltali um tvö hundruð nauðganir tilkynntar til lögreglu á árunum 2017 til 2019. Árið 2020 fækkaði tilkynningum hins vegar um 43% en á þeim tíma voru samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins hvað harðastar.
Dómsmálaráðherra, Ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan hófu í dag vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi þar sem almenningur er hvattur til að vera vakandi og láta vita.
„Við erum ekki að biðja fólk um að fara í einhvern lögguleik. Við erum að biðja fólk um að vera vakandi fyrir umhverfi sínu. Ef fólk sér eitthvað óeðlilegt í gangi, að það spyrji hvort ekki sé í lagi. Við erum öll á vaktinni, við látum hlutina ekki fara framhjá okkur, við horfum ekki í hina áttina,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Við viljum ekki að nauðganir séu partur af skemmtanalífinu, það er óásættanlegt að nauðganir séu hluti af skemmtanalífinu,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður segir að veitingafólk hafi í auknum mæli skipt sér af gruni það að fólki hafi verið byrlað slævandi lyf á djamminu.
„Veitingafólk hefur haft samband við okkur og leigubílstjóra vegna gruns um byrlanir og hefur jafnvel komið fólki upp á bráðadeild. Þá eru lögregluembætti um allt land sífellt að þróa viðbrögð sín komi upp grunur um byrlanir. Því í þeim tilfellum þarf að bregðast afar hratt við,“ segir Sigríður.
Þau segja samstarfsaðila átaksins marga , meðal þeirra er Strætó en nú er leyfilegt að trufla bílstjóra á ferð ef fólk óttast ofbeldi gegn sér eða öðrum.

Sigríður Björk segir að það eigi að vera hægt að snúa þróun undanfarinna ára við.
„Þessir glæpir sem eru tilkynntir til okkar virðast oft á tíðum vera tækifærisglæpir, einhvers konar lærð hegðun þannig að þá á að vera hægt að snúa því til baka,“ segir hún að lokum.