Skoðun

Systur eiga að njóta þess að vera á sama leik­skóla!

Bergrún Tinna Magnúsdóttir skrifar

Dagurinn í dag, 15. mars, er mikilvægur fyrir marga foreldra. Í dag hefst árleg úthlutun lausra plássa fyrir haustið hjá leikskólum Reykjavíkur.

Í Reykjavík er hvorki hverfis né systkina forgangur inn á leikskóla borgarinnar. Borgin gefur sig út fyrir að hafa sem markmið að minnka bílaumferð. En foreldrar keyra margir langar leiðir með börn sín á leikskóla eða til dagforeldra.

Börnum sem verða 18 mánaða eða eldri 1. september er lofað plássi að hausti. Það hljómar bara ágætlega, eða hvað? Hvernig virkar þetta í raun? Ég er hrædd um að fullyrðingar sem þessar séu til þess eins að líta vel út á blaði, og auka vinsældir borgarstjórnenda, en kostnaðurinn er hár og bitnar á foreldrum, börnum og starfsfólki leikskólanna.

Börnum rétt innan ákveðinna aldursmarka eru oft boðin pláss óháð því hversu langt þau þurfa að sækja skólann eða hvort eldri systkini þeirra séu á sama leikskóla eða ekki. Börnum í Hlíðum er boðið pláss í Breiðholti og börnum í Vesturbæ er boðið pláss í Hlíðum. Hálfu ári síðar er oft slitið á tengsl þessara litlu barna við kennara sína og vini og þau færð í hverfisskólann.

Það er reyndar búið að koma á svokölluðu systkinatilliti en það er frekar máttlaust og krefst mikils af skólastjórum leikskólanna okkar. Börn sem;

„eiga systkini í umsóknarleikskóla njóta systkinatillits í viðkomandi leikskóla svo framarlega sem þeim börnum sem eru fyrir framan þau á biðlista býðst rými í öðrum þeim leikskóla sem forsjármenn setja til vara.“

Eina leið leikskólastjóranna til að setja systkini í forgang er því að fylgjast sjálfir vel með hver tengist hverjum, forðast að taka inn önnur börn hærra á lista og jafnvel bíða með laus pláss til lengri tíma ef langt er í stóra árlega innritunardaginn. Stundum lenda leikskólastjórar í því að geta ekki tekið inn börn á yngri deildir þar sem losna pláss vegna þess að eldri deildir eru fullar og ekki má taka inn yngra barn ef annað eldra er á biðlista.

Elsta dóttir mín fékk ekki pláss á leikskólanum sem var í næsta húsi, við foreldrarnir keyrðum daglega með hana á annan leikskóla og skiptum svo um leið og við gátum með tilheyrandi róti fyrir barnið. Miðju dóttirin komst aldrei inn á leikskóla með systur sinni. Við búum í 105 en bauðst pláss í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi sem við afþökkuðum og biðum þar til pláss opnaðist í hverfinu á miðjum vetri, þó ekki á sama leikskóla og eldri var á. Tveir leikskólar: Ekki sömu starfsdagar, ekki eins sumarfrí, ekki covid bylgjur/lokanir á sama tíma, meiri líkur á smitum ýmissa pesta og auðvitað allt auka tilstandið á hverjum einasta degi. Í covid faraldrinum var svo extra erfitt að fylgja tveim börnum á tvo leikskóla, á tímabili leyfði annar skólinn systkinum af öðrum skólum ekki að koma með inn í fataklefa. Annar stór ókostur við þetta fyrirkomulag er að systkini geta borið pestir hratt og örugglega á milli ólíkra leikskóla borgarinnar. Ég held að við höfum því miður borið allavega eina gubbupestina (en sem betur fer ekki covid) á milli síðasta vetur. Sárast var þó að systurnar fengu ekki að njóta þess að vera saman. Í dag, 15. mars, krossa ég fingur og vona að yngsta dóttirin, sem verður 2 ára í ágúst, fái pláss á sama leikskóla og miðju systirin.

Það hlýtur að vera hagur sem flestra fjölskyldna og samfélagsins alls að settur verði á bæði systkina og hverfis forgangur á leikskólana. Það er ekki erfitt í framkvæmd að gefa börnum sem eiga eldra systkini á leikskóla x daga forgang (t.d. 40 daga?) inn á biðlistann fyrir þann leikskóla. Sömuleiðis ætti að gefa börnum sem búa innan hverfis auka z daga forgang (t.d. 20 daga?) inn á biðlista hverfisskólanna.

Við foreldrar getum ekki tekið á móti fleiri yfirlýsingum og innantómum loforðum um að börn allt niður í 12 mánaða fái inni á leikskóla og vísa ég þá orðum mínum sérstaklega til Skúla Helgasonar formanns skóla og frístundaráðs. Á meðan staðan er sú að ekki tekst að manna nýju leikskólana, erfitt er að halda leikskólum borgarinnar opnum vegna manneklu og börnunum okkar er sumum einungis boðin pláss fjarri heimilum sínum þá eru allar yfirlýsingar um innritun 12 mánaða barna eins og blaut tuska í andlitið.

Leikskólastjórar, leikskólakennarar og leiðbeinendur þið eruð hetjurnar okkar á þessum miklu álags og mönnunar-vandamála tímum og við erum svo þakklátt fyrir allt ykkar starf.

Til forsvarsmanna borgarinnar: Við foreldrar viljum kerfisbreytingu, alvöru tæklun á mönnunarvanda leikskólanna og færri loforð.

Höfundur er foreldri. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×