Í spá stofnunarinnar er gert ráð fyrir að á næsta árinu muni verg landsframleiðsla dragast saman um 1,08 prósent um heim allan vegna stríðsins. Verg landsframleiðsla muni dragast saman um 1,4 prósent í þeim nítján ríkjum sem nota evruna og um 0,88 prósent í Bandaríkjunum. Stofnunin segir þó í skýrslunni að ríki geti brugðist við þessu og dregið úr áhrifunum með því að auka útgjöld og draga úr sköttum.
Verðbólga var þegar farin að aukast um heim allan þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst og aðfangakeðjur sömuleiðis rofnar, meðal annars vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. OECD spáði um 4,2 prósenta verðbólgu í heiminum í desember en spáir því nú að átökin muni hækka hana um 2,47 prósentustig til viðbótar næsta árið.
„Á sama tíma og það leit út fyrir að heimurinn færi að jafna á sig á tveggja ára efnahagskreppu vegna Covid-19 hófst hræðilegt stríð í Evrópu,“ sagði Laurence Boone, yfirhagfræðingur hjá OECD í tilkynningu sem fylgdi spánni.
„Við vitum ekki hvaða áhrif stríðið mun hafa í raun en við vitum að það mun koma verulega niður á viðréttigu heimsmarkaða og mun þrýsta á verðbólgu um heim allan.“
Saman mynda Rússland og Úkraína minna en 2 prósent af alþjóðahagkerfinu. Ríkin eru hins vegar bæði þungaviktarframleiðendur á hinum ýmsu vörum. Til að mynda má rekja þriðjung alls hveitis, sem verlsað er með í heiminum, til ríkjanna tveggja. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir fátækari ríki, sem mörg stóla á að geta keypt ódýrt hveiti frá Rússlandi og Úkraínu. Ríki á borð við Egyptaland og Líbanon undirbúa sig nú þess vegna fyrir matvælaskort á næstu mánuðum.
Þá er um 27 prósent allrar hráolíu, sem flutt er inn til Evrópusambandsins, frá Rússlandi og meira en 41 prósent alls jarðgass. Olíu- og gasverð hefur hækkað nær stöðugt frá því í janúar vegna þessa.