Nýjar reglur, samkvæmt tillögu Viðreisnarmanna, taki mið af því að kaupandi hafi staðið skil á leigu fyrir íbúðarhúsnæði samkvæmt þinglýstum leigusamningi í 12 mánuði eða lengur teljist greiðslugeta hans samsvara sambærilegri fjárhæð á mánuði og hann hefur greitt á tímabilinu.
Það hefur verið til mikillar umfjöllunar undanfarið hve ástandið á fasteignamarkaði hefur verið erfitt undanfarið. Kaupverð hefur aldrei verið hærra og sífellt færri komast út á húsnæðismarkaðinn, þrátt fyrir að vera á jafnsprungnum leigumarkaði.
Viðtal Vísis við hjón, sem hafa árangurslaust boðið í íbúðir á höfuðborgarsvæðinu síðasta eina og hálfa árið, vakti til að mynda mikla athygli fyrr á þessu ári. Hjónin voru bæði með greiðslumat og útborgun tilbúna en gátu varla með nokkru móti komið sér inn á markaðinn. Gera má ráð fyrir að staðan sé enn verri hjá þeim sem ekki komast í gegn um greiðslumat en greiða þó mánaðarlega leigu, sem myndi samsvara mánaðarlegum greiðslum ef lán yrði tekið.
Fram kemur í þingsályktunartillögunni að markmið hennar sé að gera fólki á leigumarkaði auðveldara að standast greiðslumat við kaup á íbúðarhúsnæði í tilvikum þar sem greiðslubyrði þess myndi standa í stað eða lækka.
Viðreisnarþingmenn vilji með tillögunni leggja það í hendur fjármála- og efnahagsráðherra að gera breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat svo að lánveitendur geti litið til þess hvort lántaki hafi staðið skil á leigu fyrir íbúðarhúsnæði samkvæmt þinglýstum leigusamningi í að minnsta kosti tólf mánuði, sem er að minnsta kosti jafn há eða hærri en áætlaðar afborganir á fasteignaláni.
Telja leigjendur get lækkað greiðslubyrði með því að kaupa fasteign
Fram kemur í tillögunni að hlutfall fólks sem leigi af leigufélögum sé lægra hér á á landi en á hinum Norðurlöndunum, leiguverð sé hærra og húsnæðisöryggi minna. Minnst mælist húsnæðisöryggi hjá þeim sem leigi af einstaklingi á almennum markaði en þar sé þó stærstur hluti leigumarkaðarins.
Þá verji meðalleigjandi um 45 prósentum ráðstöfunartekna sinna í leigu og talsverður hluti heimila greiði 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.
„Miðað við það má áætla að margir leigjendur forgangsraði nú þegar með þessum hætti og að margir gætu lækkað greiðslubyrði sína til muna með því að kaupa sér fasteign,“ segir í tillögunni.