„Fjölskyldan sem Foo Fighters er er miður sín vegna hörmulegs andláts okkar heittelskaða Taylor Hawkins, sem lést langt fyrir aldur fram,“ segir í tísti sveitarinnar.
Þar segir að andi Hawkins og smitandi hlátur hans muni lifa með sveitinni það sem eftir er. Ekki er ljóst hver orsök andlátsins voru.
„Hugur okkar og hjarta eru hjá eiginkonu hans, börnum og fjölskyldu. Við viljum biðja ykkur að virða friðhelgi þeirra á þessum erfiðu tímum.“
— Foo Fighters (@foofighters) March 26, 2022
Hljómsveitin hefur verið á tónleikaferðalagi um Suður-Ameríku og átti að spila á Estereo Picnic tónlistarhátíðinni í Bogotá í Kólumbíu í gærkvöldi. Tónlistarhátíðin gaf út yfirlýsingu á Facebook þar sem það var tilkynnt að sveitin myndi ekki koma fram á hátíðinni vegna fráfalls Hawkins.
Aðdáendur sveitarinnar komu saman fyrir utan hótelið, sem sveitin hafði gist á í Kólumbíu, til að minnast Hawkins, sem hafði fundist látinn á hótelherbergi sínu.
Eftir hátíðina í Bogotá átti Foo Fighters að spila á Lollapalooza hátíðinni í Sao Paulo í Brasilíu í kvöld áður en tónleikaferð þeirra yrði haldið áfram í Bandaríkjunum.
Hawkins hafði verið trommari sveitarinnar í 25 ár af þeim 28 árum sem sveitin hefur verið starfandi. Hann tók við keflinu af fyrsta trommara sveitarinnar William Goldsmith árið 1997.