Cecilía lék sinn fyrsta leik fyrir Bayern þegar hún kom inn á sem varamaður í 1-9 sigri á Jena í þýsku bikarkeppninni síðasta dag febrúarmánaðar. Næsti leikur hennar kom hins vegar í 6-0 tapi fyrir Wolfsburg í toppslag í þýsku úrvalsdeildinni um þarsíðustu helgi. Cecilía kom þá inn á í hálfleik þegar staðan var 3-0, Wolfsburg í vil.
„Mér fannst það geggjað, að fá að koma inn á í svona stórleik,“ sagði Cecilía aðspurð hvernig það hafi verið að koma inn í svona erfiðri stöðu.
„Auðvitað voru úrslitin ótrúlega léleg fyrir okkur en við fáum annað tækifæri á sunnudaginn,“ sagði Cecilía og vísaði til leiks Bayern og Wolfsburg í þýsku bikarkeppninni 17. apríl.
Hjá Bayern spilar Cecilía með tveimur stöllum sínum úr landsliðinu, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur.
„Mér hefur liðið mjög vel í Bayern. Allar stelpurnar og starfsfólkið hafa tekið rosalega vel á móti mér og það hjálpar mjög mikið að hafa Karólínu og Glódísi þarna,“ sagði Cecilía.