Hún mun þó sitja áfram í stjórn Meta.
Sandberg hefur verið annar mest áberandi yfirmaður Meta, á eftir Mark Zuckerberg, forstjóra. Hún hefur átt stóran þátt í því að byggja upp eitt stærsta auglýsinga- og samfélagsmiðlafyrirtæki heims.
Zuckerberg hefur hyllt Sandberg og eignað henni heiðurinn að því hve vel Facebook hefur verið rekið í gegnum árin og því hve háar auglýsingatekjur Meta eru. Hann segir hana hafa kennt sér að reka fyrirtæki.
Þá hefur hún staðið í brúnni þegar Meta hefur siglt ólgusjó á undanförnum árum. Til að mynda í tengslum við kosningar í Bandaríkjunum, afskipti Rússa af þeim, og hneykslismálum tengdum persónuupplýsingum notenda Meta og hvað gert hefur verið við þær upplýsingar.
Notendum Facebook fækkaði nýverið í fyrsta sinn í átján ára sögu fyrirtækisins og samkeppni fyrirtækisins í samfélagsmiðlageiranum hefur aukist til muna.
Bæði Sandberg og Zuckerberg sögðu frá ákvörðun hennar á Facebook fyrr í kvöld.
Í frétt Washington Post segir að Sandberg hafi barist fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu og hafði meðal annars skrifað bók um það málefni, þar sem hún hvatti konur til að vera meira áberandi á vinnustöðum.
Javier Olivan, sem er einn af yfirmönnum Facebook og hefur unnið þar til langs tíma, mun taka við skyldum Sandberg að einhverju leyti. Zuckerberg segir í áðurnefndri færslu að hann ætli að dreifa skyldum hennar á fleiri en eitt starf.