Samkvæmt Lyfjastofnun eru enn til nægar birgðir af Parkódín forte 500 mg/30 mg í 200 stykkja pakkningum. Skortur hefur verið á tuttugu og þrjátíu stykkja pökkum frá því í lok maí og þann 20. júlí bárust upplýsingar um skort á fjörutíu og hundrað stykkja pakkningum.
Teva Pharma Iceland er umboðsaðili verkjalyfsins hér á landi. Í tilkynningu fyrirtækisins til Lyfjastofnunar segir að vandkvæði í framleiðslu lyfsins skýri skortinn en þau séu ekki gæðatengd.
Fram kemur í svari frá Lyfjastofnun við fyrirspurn fréttastofu að miðað við þær upplýsingar sem hún hafi handbærar sé reiknað með því að sendingar af öllum pakkastærðunum fari að berast aftur til Íslands í byrjun ágúst. Í millitíðinni bendir Lyfjastofnun á undanþágulyfið Co-Dafalgan 500/30 mg sem fáanlegt er í 40 stykkja pakkningum.
Ekki óvenjumikið um lyfjaskort
Lyfjastofnun hefur birt sex tilkynningar um lyfjaskort á vef sínum það sem af er júlí en fram kemur í svari hennar að ekki hafi borist fleiri slíkar tilkynningar til stofnunarinnar en að jafnaði. Misjafnt sé hvort tilkynningar um skort séu birtar á vefnum og birtingarnar mismargar frá einum tíma til annars.
Í byrjun þessa árs sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við Fréttablaðið að áhyggjur væru uppi um mögulegan lyfjaskort á Íslandi og nauðsynlegt væri að vera vakandi fyrir ástandinu. Vísaði hún þá til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru sem hafi bæði raskað og tafið framleiðslu og innflutning lyfja.