Leifur Björnsson, verkefnastjóri Record in Iceland hjá ÚTÓN, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, héldu stutta tölu til að kynna verkefnið og áframhaldandi fjárfestingar ráðuneytisins í tónlist, samanber kynningu ráðuneytisins á fyrstu íslensku tónlistarstefnunni og frumvarpi til heildarlaga um tónlist fyrr í ágúst.

Endurgreiðslur á hljóðritunarkostnaði
„Record in Iceland verkefnið gengur út á að kynna 25% endurgreiðslur á hljóðritunarkostnaði sem stofnað er til hér á landi. Framkvæmd kynningar er í höndum ÚTÓN en endurgreiðslurnar koma beint frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu,“ segir í fréttatilkynningu frá ÚTÓN.
Styrkir íslenska tónlist
Í tölu sinni gerði ráðherra grein fyrir að sambærilegt verkefni í kvikmyndaiðnaðinum, Film in Iceland, hafi gengið vonum framar og laðað hingað til lands stór alþjóðleg kvikmyndaverkefni á síðustu árum. Miklar væntingar eru fyrir því að sambærileg fjárfesting í tónlist muni skila sér í aukinni fagþekkingu innanlands og styrkja íslenska tónlist.

Verkefnið vann útflutningsverðlaun á Degi íslenskrar tónlistar í fyrra og í ár hefur ÚTÓN verið með kynningar á Record in Iceland í Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, á Norðurlöndunum og í Portúgal.
„Áhugi á upptökum hér á landi fer sívaxandi enda eru hljóðverin hér mörg hver á heimsmælikvarða. Endurgreiðslurnar standa íslensku tónlistarfólki einnig til boða,“ segir í tilkynningunni.
ÚTÓN og ráðherra buðu til móttöku fyrir fagaðila í tónlist en hér að neðan má sjá myndir úr teitinu, sem teknar voru af Cat Gundry-Beck.











