Á vesturhelmingi landsins má reikna með norðlægri eða breytilegri átt, þremur til tíu metrum á sekúndu, en norðvestan, tuttugu til 28 metrum á sekúndu austanlands en að það dragi úr vindi seinnipartinn. Hiti á landinu verður tvö til tíu stig og mildast sunnan heiða.
Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að niðurstaðan af þessu sé að versta veðrið austanlands hafi verið afstaðið í gærkvöldi, en enn vegi búast við norðvestan stormi eða roki á Austfjörðum fram eftir degi.
„Þar lægir síðan svo um munar í kvöld og nótt, en þá hefur áðurnefnd lægð fjarlægst landið, ásamt því að hún heldur áfram að grynnast. Austanlands verður skýjað að mestu í dag og dálítil rigning eða slydda eftir hádegi.
Fyrir vestan land er staddur hæðarhryggur og stjórnar hann veðrinu á vesturhelmingi landsins. Þar er því hæg norðlæg eða breytileg átt og léttskýjað.
Á morgun lægir enn frekar við austurströndina og þá verður komið hið rólegasta veður á landinu öllu. Ekki er búist við úrkomu að neinu ráði. Það verður væntanlega skýjað um landið norðaustanvert, en í öðrum landshlutum ætti eitthvað að sjást til sólar.
Hitinn í dag og á morgun er svipaður: svalast um 2 gráður norðaustanlands, en allt að 10 stig yfir hádaginn sunnan heiða.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Breytileg átt 3-8 m/s, en norðan strekkingur við austurströndina fyrir hádegi. Víða bjartviðri, en skýjað um landið norðaustanvert. Hiti 3 til 10 stig, mildast sunnanlands.
Á miðvikudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar væta á Suður- og Vesturlandi, en þurrt og bjart norðan- og austanlands. Hiti 5 til 10 stig.
Á fimmtudag: Suðaustan 8-15 m/s og rigning með köflum, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 12 stig.
Á föstudag: Ákveðin austanátt og dálítil rigning, en yfirleitt þurrt á Norður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Austan- og norðaustanátt og rigning af og til, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast sunnan heiða.
Á sunnudag: Austlæg átt. Skýjað austanlands, en léttskýjað vestantil. Hiti breytist lítið.