Elon Musk, sem á og rekur fyrirtæki eins og Tesla og Spacex, kom öllum á óvart á mánudaginn þegar hann lýsti því yfir að hann ætlaði að standa við upprunalega kaupsamninginn en útlit var fyrir að málið myndi enda fyrir dómstólum.
Hann átti að fara í skýrslutöku í dag en henni var frestað vegna yfirlýsingar Musks.
Musk skrifaði í apríl undir samning um að kaupa Twitter á 44 milljarða dala, eða 54 dali á hlut. Skömmu síðar lýsti hann þó því yfir að hann væri hættur við kaupin. Hann sakaði stjórn Twitter um að hafa ekki útvegað sér gögn sem hann bað um varðandi raunverulegan fjölda falskra reikninga, eða botta, á Twitter.
Auðjöfurinn sagði að þær upplýsingar væru nauðsynlegar svo hann gæti metið raunverulegt verðmæti Twitter.
Þetta gerði hann þó eftir að hafa skrifað undir kaupsamning og hófust málaferli. Þau eru ekki komin langt á veg en sérfræðingar eru að mestu sammála um að útlitið hafi ekki verið gott fyrir Musk..
Sjá einnig: Selur í Tesla af ótta við þvinguð kaup á Twitter
Musk hefur viljað fá afslátt en viðræður þar að lútandi hafa ekki skilað árangri.
New York Times segir að Musk hafi viljað allt að þrjátíu prósenta afslátt. Þá myndi hann kaupa fyrirtækið á um 31 milljarð dala. Í gær var það metið á 39,2 milljarða. Hann bað svo um tíu prósenta afslátt en fékk það ekki heldur.
Því lýsti hann því yfir á mánudaginn að hann væri tilbúinn til að kaupa Twitter á upprunalega verðinu, 44 milljarða dala, og samþykkti stjórn Twitter það.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal er viðræðum þó ekki lokið, þó Musk hafi gefið upp vonina á afslætti.
Meðal þess sem viðræðurnar snúast nú um er hvaða skilyrði þurfi að uppfylla svo báðir aðilar samþykki að fella lögsóknir sínar niður og fjármögnun Musks á samfélagsmiðlafyrirtækinu.