Tæpt ár er síðan Bob Chapek tók við af Bob Iger en á þeim tíma hafði Iger starfað áfram hjá Disney og setið í stjórn fyrirtækisins. Á þessu ári hafði Disney staðið vel en ársfjórðungsuppgjör sem birt var í síðasta mánuði olli þó vonbrigðum.
Samkvæmt Wall Street Journal kom yfirlýsing stjórnar Disney fjárfestum á óvart í gær.
Chapek hefur starfað hjá Disney í 28 ár og var hann einungis sjöundi forstjórinn í tæplega hundrað ára sögu fyrirtækisins.
Skemmtigarðar Disney eru sagðir hafa blómstrað í kjölfar faraldurs Covid-19 en það sama má ekki segja um streymisveitu Disney, Disney plus. Hún tapaði 1,47 milljörðum dala á síðasta ársfjórðungi og hafði tapið tvöfaldast milli ára.
Chapek hefur ítrekað haldið því fram að streymisveitan yrði arðbær fyrir september 2024. Nokkrar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi streymisveita þar sem áherslan er ekki lengur á að fjölga notendum sama hvað, heldur reka þær með hagnaði.
Frá því síðasta ársfjórðungsuppgjör Disney var birt hefur virði hlutabréfa fyrirtækisins lækkað um þrettán prósent. Á þessu ári hefur virði þeirra lækkað um 41 prósent.
Heimildarmenn WSJ segja að fjárfestingasjóðurinn Trian Fund Management LP hafi á þessu ári keypt hlutabréf í Disney fyrir meira en átta hundruð milljónir dala og eigi rétt undir fimm prósentum í fyrirtækinu. Forsvarsmenn sjóðsins eru sagðir vilja stækka eignarhlut sinn og koma manni í stjórn Disney. Þeir vilja taka til í rekstri Disney og draga úr kostnaði.
Forsvarsmenn sjóðsins eru sagðir andvígir því að Bob Iger taki aftur við stjórn Disney.