Þrátt fyrir að lenda undir gegn Argentínumönnum gerðu Sádí-Arabar sér lítið fyrir og unnu Suður-Ameríkumeistarana í fyrsta leik dagsins á HM. Sádí-Arabía batt þar með endi á 36 ósigraða hrinu Argentínu sem hefði sett nýtt heimsmet ef liðið hefði ekki tapað í dag. Saleh Al-Shehri og Salem Al-Dawsari skoruðu mörk Sádí-Araba með fimm mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks.
Samkvæmt tölfræðingum Gracenote átti Sádí-Arabía aðeins 8,7 prósent möguleika á að vinna leikinn í dag. Aldrei í 92 ára sögu heimsmeistaramótsins hefur lið átt minni möguleika á sigri í leik.
Gamla metið var 72 ára, eða frá því Bandaríkin unnu England, 1-0, á HM 1950 í Brasilíu. Bandaríkjamenn áttu aðeins 9,5 prósent möguleika á að vinna þann leik.
Í 3. sæti lista Gracenote yfir óvæntustu úrslit í sögu HM var sigur Sviss á Spáni, 1-0, 2010. Þrátt fyrir tapið urðu Spánverjar heimsmeistarar í fyrsta og eina sinn. Þeir eru eina liðið sem hefur unnið HM þrátt fyrir að tapa fyrsta leik sínum.
Óvæntustu úrslit í sögu HM
- Sádí-Arabía 2-1 Argentína, HM 2022 - 8,7%
- Bandaríkin 1-0 England, HM 1950 - 9,5%
- Sviss 1-0 Spánn, HM 2010 - 10,3%
- Alsír 2-1 Vestur-Þýskaland, HM 1982 - 13,2%
- Gana 2-0 Tékkland, HM 2006 - 13,9%
- Úrúgvæ 2-1 Brasilía, HM 1950 - 14,2%
- Suður-Kórea 2-0 Þýskaland, HM 2018 - 14,4%
- Wales 2-1 Ungverjaland, HM 1958 - 16,2%
- Norður-Írland 1-0 Spánn, HM 1982 - 16,5%
- Senegal 1-0 Frakkland, HM 2002 - 17,3%