Sjóböðin verða byggð af eignarhaldsfélaginu Blævængi ehf. í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu og arkitektúrstofuna Sen&Son. Næstu skref í þróun verkefnisins eru náttúrufarsgreining og deiliskipulag svæðisins.
„Böðin byggja á sjálfbærri nýtingu á varmaorku úr sjó, einstakri náttúrufegurð og þessari dásamlegu gullnu skeljasandsfjöru sem nú þegar er miðstöð sjóbaða á norðanverðum Vestfjörðum. Nálgun okkar er nærfærin á þann hátt að byggingin og böðin eru hönnuð inn í umhverfið og verða hluti af því,“ er haft eftir Runólfi Ágústssyni, verkefnastjóra verkefnisins, í tilkynningu.

Tvær bryggjur munu liggja frá lauginni um fjöruna í sjóinn. Annars vegar verður stígur tengdur stuttri flotbryggju og hinsvegar ný löng trébryggja út í fjörðinn þar sem gestir geta farið í stóran heitan pott á bryggjusporðinum.
Til að hita upp sturtur, laug og potta hefur Efla unnið tillögur á því að vinna varmaorku úr sjónum. Sjávarhitinn verður nýttur sem orkugjafi og sjónum dælt um sérstaka varmadælu. Í tilkynningunni segir að verkefnið feli því í sér nýsköpun hvað varðar orkuvinnslu á köldum svæðum.
Ásamt laugum, pottum og baðströndinni verða veitingastaður, gufuböð, snyrti- og nuddstofa. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði Flateyrar og verður markaðssett undir heitinu Hvítisandur sem er gamalt örnefni fyrir svæðið.
