Hamilton átti erfitt ár líkt og allt lið Mercedes sem tókst illa á við miklar breytingar sem gerðar voru á Formúlubílum fyrir leiktíð ársins. Mikið skopp (e. porpoising) á bíl Mercedes og önnur tengd vandræði gerðu liðinu erfitt fyrir.
Það rétti þó úr kútnum eftir því sem á leið. Liðsfélagi Hamiltons, George Russell, sem varð fjórði í heildarkeppninni, komst átta sinnum á pall og vann eina keppni, í Brasilíu í næst síðasta kappakstri ársins. Hamilton varð sjötti og komst níu sinnum á pall en vann ekki eina einustu keppni.
Fyrsta sigurlausa tímabilið í 21 ár
„Ég er viss um að ég hafi átt sigurlausar leiktíðir áður - það var líklega í kartinu árið 2001,“ segir Hamilton í viðtali við Bild, en þá var hann 16 ára gamall.
„Við vildum augljóslega keppa um heimsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en þurftum að horfast í augu við stöðuna snemma. Þrátt fyrir það fannst manni sum úrslit vera sigrar, þó þau væru það raunverulega ekki,“
„Það voru hins vegar svo mörg högg sem dundu á okkur í aðdraganda þess að góðu úrslitin skildu eftir sig tómleikatilfinningu,“ segir Hamilton.
Sá eini sem ekki kaus
Í gær var tilkynnt um kjör í ökuþóri ársins í Formúlu 1, sem kjörinn er af keppendum hvers tímabils. Hamilton lenti nokkuð óvænt í þriðja sæti, ásamt liðsfélaga sínum Russell. Þeir enduðu fyrir ofan Sergio Pérez á Red Bull og Carlos Sainz á Ferrari, sem báðir enduðu ofar í töflunni en Hamilton.
Heimsmeistarinn Max Verstappen var kjörinn bestur, líkt og von var á, en Charles Leclerc, sem varð annar í keppni ökuþóra, lenti í sama sæti í kjörinu.
Athygli vakti að Hamilton var eini ökuþórinn sem ekki tók þátt í kjörinu. Hann virðist hafa kúplað sig út eftir aðra erfiðu leiktíðina í röð þar sem hann hefur þurft að horfa á eftir titlinum í hendur Verstappen.