FTX var tekið til gjaldþrotameðferðar eftir að fyrirtækið átti ekki lengur fyrir innistæðum viðskiptavina sinna. Þeir gerðu hliðstæðu bankaáhlaups og tóku út innistæður að andvirði milljarða dollara á örfáum dögum eftir að fregnir bárust af því að fyrirtækið gæti verið í vanda statt. FTX var um tíma þriðja stærsta rafmyntakauphöll heims.
Bankman-Fried, stofnandi og forstjóri FTX, er ákærður fyrir fjársvik, peningaþvætti og brot á lögum um framlög til stjórnmálaflokka. Hann var framseldur frá Bahamaeyjum til Bandaríkjanna í síðasta mánuði. Þegar hann kom fyrir dómara fyrr í þessari viku lýsti hann sig saklausan af ákæruefninu. Hann gæti átt yfir höfði sér áratugalangt fangelsi verði hann fundinn sekur.
Sagði af sér rétt fyrir hrunið
Reuters-fréttastofan segir frá því Daniel Friedberg, fyrrverandi yfirlögfræðingur FTX, vinni nú með saksóknurum að rannsókn þeirra á fyrirtækinu. Hann hafi átt fund með fulltrúum alríkissaksóknara, alríkislögreglunnar og verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna innan við tveimur vikum eftir fall FTX.
Á þeim fundi hafi Friedberg sagt rannsakendum það sem hann vissi um hvernig Bankman-Fried hefði notað fjármuni viðskiptavini FTX til þess að halda Alamada Research, vogunarsjóði í sinni eigu, á floti. Heimildir Reuters herma að Friedberg sjálfur sé ekki til rannsóknar og að hann verði væntanlega á vitnalista ákæruvaldsins í málinu gegn Bankman-Fried.
Friedberg sagði af sér degi áður en Bankman-Fried upplýsti æðstu stjórnendur FTX um að lausafé fyrirtækisins væri nánast á þrotum og tveimur dögum áður en það óskaði eftir gjaldþrotaskiptum.
Áður hefur komið fram að tveir af nánustu samverkamönnum Bankman-Frieds játuðu sig seka um misferli og að þeir vinni nú með saksóknurum í skiptum fyrir vægari refsingu. Þeirra á meðal er Caroline Ellison, fyrrverandi forstjóri Alameda Research og fyrrverandi kærasta Bankman-Frieds.
Skiptastjóri FTX hefur lýst því sem átti sér stað innan veggja fyrirtækisins sem mestu óstjórn sem hann hafi orðið vitni að. Hann sá engu að síður um endurskipulagningu orkurisans Enron sem fór á hausinn með miklum tilþrifum í skugga stórfelldra bókhaldsblekkinga við upphaf aldarinnar.