Í bloggfærslu sem Schuman birti árið 2017 sagði hún Carter hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi í íbúð hans í Santa Monica í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum. „Hann var vægðarlaus og tók ekki neitunum mínum sem svari,“ sagði hún meðal annars í færslunni.
Carter þvertók fyrir ásakanir Schuman í yfirlýsingu. Þar sagði hann að Schuman hafi „aldrei tjáð sér á meðan þau voru saman eða á nokkrum tíma“ að eitthvað sem þau gerðu hafi ekki verið gert með samþykki beggja aðila.
Ný lög
Schuman fór með málið til lögreglunnar í Santa Monica árið 2017. Carter var ekki ákærður sökum þess að of langur tími var liðinn síðan meint brot hafði átt sér stað. Kalifornía felldi niður fyrningu kynferðisbrota árið 2016 en það var þó ekki gert afturvirkt.
Ný lög um kynferðisbrot tóku þó gildi í ríkinu fyrr á árinu og eiga þessi nýju lög að virka aftur í tímann. Í kjölfar þess hefur Schuman ákveðið að stefna Carter.
Stefnir til baka
Sem fyrr segir hefur Carter neitað ásökunum Schuman. Í yfirlýsingu sem Liane K. Wakayama, lögmaður Carter, sendi Rolling Stone í tengslum við málið segir hún að Carter standi ennþá við það sem hann sagði á sínum tíma.
Carter hefur ekki bara neitað ásökununum heldur hefur hann stefnt Schuman til baka fyrir rógburð og kúgun. Hann sakar aðra konu að nafni Shannon Ruth um slíkt hið sama en hún ásakaði hann um nauðgun í desember í fyrra. Ruth sakar Carter um að hafa beitt sig ofbeldi í rútu hljómsveitarinnar árið 2001, þegar hún var sautján ára gömul.
Á leiðinni til Íslands
Nick Carter er væntanlegur til Íslands eftir um tvær vikur þar sem strákarnir í Backstreet Boys halda tónleika í Laugardalshöll þann 28. apríl. Þetta er í fyrsta skipti sem hljómsveitin kemur hingað til lands. Uppselt er á B-svæði tónleikanna.
Uppfært: Í fyrri útgáfu stóð að Carter hafi verið kærður en rétt er að honum var stefnt.