„Ég held þetta sé að nálgast eitthvað á þriðja þúsundið þegar allt er talið,“ segir Arngrímur og vísar til fjölda þeirra sem brugðist hafa við mynd hans inni á Facebook hópi íbúa Hlíðahverfis. Þar birti hann mynd af fjölskyldunni í morgun.
Komu spásserandi niður götuna
„Ég var bara úti á götu að týna rusl og var litið upp og þá koma þær spásserandi á móti mér,“ segir Arngrímur.
„Þær litu hvorki til hægri né vinstri og voru einbeittar og gengu bara yfir götuna. Svo kom bíll að neðan og hann þurfti bara að gjöra svo vel og stoppa á meðan þær fóru sína leið.“
Arngrímur segist ekki hafa séð fjölskylduna áður í götunni. Sjónarspilið hafi því komið vel á óvart.

„Þær birtust þarna bara eins og að himnum ofan. Maður var alltaf að sjá gæsir allan ársins hring en ég hef aldrei séð unga hérna áður, enda er ekkert vatn hérna nálægt, ekki einu sinni skurður,“ segir Arngrímur og bætir því við að hann hafi verið fljótur að taka upp símann til að mynda þær.
Dvalarstaður við Kringluna
„Ég náði frábærri mynd í þriðju tilraun. Núna er fjölskyldan horfin á braut, ég veit ekki hvert hún fór enda passaði ég mig á því að vera ekkert að trufla. Foreldrarnir þurfa frið til þess að koma ungunum á flot.“
Eins og áður segir vakti mynd Arngríms af fjölskyldunni gríðarlega athygli. Svo virðist vera sem fjölskyldan eigi sér samastað í beði við líkamsræktarstöðina World Fit við Kringluna.
Það er útvarpsmaðurinn Atli Már Steinarsson sem opinberar þetta en hann tjáir sig við færslu Arngríms og segist hafa fylgst með gæsafjölskyldunni í nokkrar vikur. „Gleður mig mjög mikið þegar ég sá að ungarnir voru búnir að klekjast út og séu vonandi á leið á betri stað til að búa á.“