Stadler játaði sig sekan um að hafa haldið áfram að selja bíla sem menguðu meira en gefið var upp, jafnvel eftir að ljóstrað var upp um blekkingar Volkswagen Group, móðurfélags Audi. Bílaframleiðandinn notaði sérstakan hugbúnað sem dró úr útblæstri dísilbíla tímabundið á meðan eftirlitsaðilar skoðuðu þá.
Héraðsdómstóll í München dæmdi Stadler í 21 mánaðar fangelsi skilorðsbundið og til þess að greiða 1,1 milljón evra í sekt, að sögn Reuters. Stadler neitaði upphaflega sök. Hann hafi ekki vitað af blekkingunum og að viðskiptavinir hefðu borið skaða af. Viðurkenndi hann þó að það væri mögulegt og að hann hefði átt að gæta sín betur.
Þrír lægra settir millistjórnendur gerðu einnig sátt við saksóknara í málinu.
Volkswagen hefur samtals þurft að greiða meira en þrjátíu milljarða dollara í sektir og sáttir vegna blekkinga sinna. Tveir stjórnendur fyrirtækisins í Bandaríkjunum hafa hlotið fangelsisdóma.
Mál vofa enn yfir öðrum stjórnendum Volkswagen, þar á meðal Martin Winterkorn, fyrrverandi forstjóra samstæðunnar. Dráttur hefur orðið á máli hans vegna veikinda hans.