Þetta er í fyrsta sinn sem Hlíðarbúar halda viðburðinn og segir skipuleggjandi garðsölunnar íbúa hafa tekið vel í hugmyndina.
„Mér datt þetta í hug núna í vor, því mig vantaði að losa mig aðeins við draslið hjá mér, að athuga hvort það væri stemming fyrir því að hafa sameiginlegan garðsöludag hérna í Hlíðunum. Það voru rosa góðar undirtektir þannig við kýldum á þetta,“ sagði Anna Helga Guðmundsdóttir, skipuleggjandi markaðarins.
Vonir standi til að viðburðurinn verði árlegur en íbúar í hverfinu gátu svo sannarlega gert góð kaup í dag.
Salan fjármagni GoKart eða utanlandsferð
Það kenndi svo sannarlega ýmissa grasa á garsölunni hjá hinum tíu ára Hannesi Tryggva Hilmarssyni og var hann bjartsýnn á að losna við allt dótið, með einum eða öðrum hætti. Hann ætlaði að nýta peninginn sem safnaðist í GoKart eða í utanlandsferð á óþekktar slóðir.

„Við erum að selja föt á fimmtíu prósent afslætti, dót, spjöld og alls konar,“ sagði Hannes.
Fyrir hverju ertu að safna?
„Við erum að safna fyrir gokart eða ferðalagi,“ sagði hann.
Og hvert langar þig að fara?
„Ég er ekki viss,“ sagði hann þá.
„Við erum eiginlega meira að gefa en að selja,“ sagði Hannes að lokum, bjartsýnn um að losna við sem flest dót á garðsölunni.
Litar með avókadóhýðum, njóla og öðru illgresi
Hin finnska Marjatta Ísberg, sem hefur búið meirihluta ævi sinnar hér á landi, var með heldur forvitnilegar vörur til sölu.
„Ég er að selja einband og svo lita ég það með íslenskum jurtum sem ég tíni hér í nágrenninu,“ sagði Marjatta í samtali við fréttastofu.
„Ég nota aðallega jurtir sem eru hér úti um allt og helst eins og illgresi,“ sagði hún en þar á meðal voru bönd lituð með njólablöðum, súrufræjum, grenikönglum og avókadóhýðum af því fjölskylda hennar borðaði svo mikið af avókadó.
