Eftir að hafa fylgst vökulum glyrnum með eigendum sínum fara með brúðkaupsheitin innsiglaði kötturinn Momo hjónabandið með því að leggja blekvota loppuna sína á hjónabandsleyfi parsins. Það sem vekur þó mesta furðu er að samkvæmt reglum í Colorado, þar sem hjónin eru búsett, er athöfn með þessum hætti, lögleg.
Hjónabandslög í Colorado gera enga kröfu til þess að vígðir embættismenn sinni brúðkaupsathöfnum.

Þau Amanda (32) og Steve (29) ættleiddu læðuna Momo árið 2021 en hún var áður á vergangi og því er óvíst um aldur hennar.
Æfðu loppufarið lengi
„Momo er að því sem ég best veit, fyrsti kötturinn til að undirrita hjónabandssamning,“ sagði Amanda, í samtali við The Post.
„Að hafa hana sem vitni gerði brúðkaupið skemmtilega eftirminnilegt. Við æfðum hana mikið í að stimpla loppufarið áður en til stóru stundarinnar kom. Í fyrstu var þetta bara eins og einn stór flekkur en loka niðurstaðan er æðisleg og styrkir ástina okkar.“

Brúðkaupsferð til Íslands
Á TikTok síðu sinni deildu hjónin myndum og myndbandsbroti af kettinum gráa dýfa loppu sinni í gæludýravænt blek og stimpla með henni á lögfræðiskjalið. Myndbandið hefur nú hlotið 4,4 milljón áhorfs.
Viðbrögð við færslunni hafa verið fjölbreytt þar sem stór hópur fólks segist munu leggja leið sína til Colorado til að leika þetta eftir.
„Þetta á við um allar gerðir gæludýra,“ skrifar einn í athugasemd og tekur fram að vinnufélagi sinn hafi haft hundinn sinn sem vitni.
Eftir brúðkaupið héldu hjónin í brúðkaupsferð til Íslands þar sem þau nutu alls þess sem landið hefur upp á að bjóða.