Tilkynnt var í fyrra að stjórnir Microsoft og Activision Blizzard hefðu náð samkomulagi um að hið fyrrnefnda fyrirtæki keypti það síðarnefnda fyrir 69 milljarða dala, sem samsvarar rúmum 9,2 billjónum króna.
Samruni þessara fyrirtækja yrði sá stærsti í sögu leikjaiðnaðarins en Microsoft hefur staðið í miklum deilum og samningaviðræðum við samkeppnisyfirvöld víða um heim vegna hans.
Activision Blizzard framleiðir meðal annars Call of Duty leikina, sem eru gífurlega vinsælir um heiminn allan og samkeppnisyfirvöld hafa gagnrýnt að Microsoft gæti gert leiki AB óaðgengilega fyrir aðra en notendur xBox.
Forsvarsmenn Microsoft höfðu gert samkomulag við Nintendo, Nvidia og aðra um að gera Call of Duty leikina aðgengilega öllum í tíu ár. Forsvarsmenn Sony höfðu þó hingað til ekki viljað skrifa undir slíkan samning.
Brad Smith, sem stýrir leikjadeild Microsoft og er varaformaður stjórnar fyrirtækisins, tilkynnti í gær að þetta samkomulag hefði náðst. Eigendur Playstation munu hafa aðgang að Call of Duty leikjunum í minnst tíu ár.
We are pleased to announce that Microsoft and @PlayStation have signed a binding agreement to keep Call of Duty on PlayStation following the acquisition of Activision Blizzard. We look forward to a future where players globally have more choice to play their favorite games.
— Phil Spencer (@XboxP3) July 16, 2023
Yfirlýsing Microsoft nefnir ekki að samkomulagið nái til tíu ára en samkvæmt frétt Wall Street Journal hefur Sony staðfest að svo sé.
Gæti haft áhrif á áfrýjun Samkeppniseftirlitsins
Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna (FTC) er meðal þeirra sem hafa reynt að koma í veg fyrir samrunann. Dómari úrskurðaði þó nýverið að samruninn mætti eiga sér stað en þeim úrskurði var áfrýjað í síðustu viku. Forsvarsmenn FTC höfðu sagt að markaðsstaða Microsoft varðandi leikjatölvuna Xbox yrði of sterk og sömuleiðis varðandi sífellt stækkandi leikjaáskriftar fyrirtækisins sem kallast Xbox Game Pass.
FTC sagði Activision eitt tiltölulega fárra fyrirtækja sem framleiði hágæða tölvuleiki fyrir alls konar leikjatölvur og snjalltæki. Milljónir manna um heim allan spili leiki fyrirtækisins á margvíslegum tölvum og tækjum og að það gæti breyst með kaupum Microsoft á fyrirtækinu.
Sjá einnig: Reyna aftur að stöðva samruna Microsoft og Activision
Samkomulag Microsoft og Sony eykur á þrýstinginn um að FTC felli áfrýjunina niður en Microsoft verður að óbreyttu að ganga frá samrunanum fyrir dagslok á morgun. Annars gæti fyrirtækinu verið gert að greiða þrjá milljarða dala í sekt, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.