„Nei, ég held ekki. Við vorum kannski heppnir að komast í framlengingu og heppnir að vinna þetta,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leikinn í kvöld.
Í fyrsta leikhluta voru Keflvíkingar með ágætis tök á Njarðvíkingum og gott vald á leiknum en misstu leikinn aðeins frá sér í öðrum leikhluta.
„Þetta er efsta liðið í Subway-deildinni. Þetta er einn öflugasti heimavöllur á landinu. Þetta er auðvitað alvöru leikur, alvöru lið að berjast og við getum ekki haldið 40 mínútur og valtað yfir þá. Ég held að það sé alveg vonlaust, þeir eru með hörku lið, hittu vel og stoppuðu okkur í því sem við vorum að gera. Sem betur fer er leikurinn 40 mínútur, stundum 45 og það skiptir máli hvernig maður klárar leikinn en ekki hvernig maður spilar í öðrum leikhluta.“
Njarðvíkingar komust mest í tíu stiga forskot í síðari hálfleik en Keflavíkur liðið sýndi mikinn karakter að vinna sig aftur inn í leikinn.
„Planið hjá okkur er bara að tíu stig eru ekkert nema bara tvö stopp og tvær þriggja (stiga körfur) og þú ert kominn inn í leikinn aftur. Þetta er rosalega fljótt að gerast og tíu stig er ekki neitt í þessu. Við erum ekki með svona lið sem er að gefa mikið inn í og tjakka eitthvað undir körfunni og fá tvö stig, við erum að reyna fá þrjú stig og auðveld lay-up þannig við erum bara þolinmóðir. “
Pétur var ekki kominn svo langt að fara að spá í hvaða liði hann vildi fá upp úr hattinum í 16-liða úrslitum.
„Ég veit eiginlega ekki hvaða lið eru í pottinum. Þetta verður bara gaman. Maður getur óskað sér eitthvað en það er bara næsti leikur og leikur sem verður pottþétt erfiður.“
„Þetta var bara eins og úrslitakeppni í október sem var svo geggjað,” sagði Pétur að lokum.