Í tilkynningu frá Samkaupum segir að hlutverk Eldum Gott verði að þróa og breikka vörulínu félagsins með áherslu á tilbúna rétti, rétti sem hægt er að fullelda heima og á ferskvöru.

„Þetta eru spennandi tímar fyrir mig persónulega. Tækifærin eru gríðarleg innan Samkaupa, hlutdeild þeirra á markaði og staðsetningar verslana opna á mjög marga spennandi kosti. Innan Samkaupa er mikil reynsla og þekking sem skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að færa veitingarekstur nær innkaupakörfunni í matvöruverslunum. Það er margt spennandi sem á eftir að líta dagsins ljós á næstu misserum í verslunum Samkaupa um land allt,“ er haft eftir Sigmari í tilkynningunni.
Sigmar hefur verið yfir Minigarðinum síðustu ár en nú færir hann sig um set. Minigarðurinn er minigolf-staður og veitingastaður í Skútuvogi sem opnaði árið 2020.