Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem ætlað er að tryggja rekstraröryggi í greiðslumiðlun. Á árinu 2019 kom Seðlabankinn á framfæri áhyggjum við þjóðaröryggisráð vegna þess hve smágreiðslumiðlun í landinu væri háð fáum erlendum aðilum.

Yfir 90% af öllum slíkum greiðslum færu nú um greiðslukortainnviði alþjóðlegu kortasamsteypanna. Einnig byggðu flestar íslenskar fjártæknilausnir á þessum sömu innviðum. Sú samþjöppunaráhætta væri ekki ásættanleg fyrir íslenskt efnahagslíf og þörf á fleiri valkostum í greiðslumiðlun hér á landi.
Málið hefur margsinnis verið rætt í þjóðaröryggisráði og Seðlabankinn hefur sömuleiðis átt í viðræðum við íslensku bankana um uppbyggingu innlendrar lausnar á greiðslumiðlun í smásölu. En í dag greiða Íslendingar milljarða í ýmsar þóknanir og gjöld vegna kortaviðskipta.
Frumvarpi forsætisráðherra hefur ekki beinlínis verið fagnað af Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja sem sent hafa inn sameiginlega umsögn um frumvarpið. Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir fjármálafyrirtækin ekki síður en Seðlabankinn leggja áherslu á öryggismál.

„Seðlabankinn hefur verið í samstarfi við bankana um að þróa þessa lausn. Okkur finnst eðlilegt að láta á það reyna til hins ítrasta hvort menn nái ekki saman í því,“ segir Heiðrún. Þá liggi ekki fyrir mat á þeim kostnaði sem myndi fylgja þeirri leið sem lögð væri til í frumvarpinu né mat á hversu mikið þessi íslenska leið yrði notuð.
Samtök fjármálafyrirtækja teldu eðlilegra að Seðlabankinn reyndi til þrautar að ná samningum við fjármálafyrirtækin um innlenda lausn og gert yrði kostnaðarmat. Þá virtist frumvarpið aðeins ná til innlendra lausna en Íslendingar þyrftu áfram að nota erlend kort í öðrum löndum. Allar tölur um sparnað væru því óljósar.
„En það sem líka skiptir máli er að við í fjármálafyrirtækjum höfum verið að leggja mikla áherslu á að lækka kostnað. Það hefur tekist vel. Meðal annars með tæknivæðingu og slíkt. Þannig að þessi tvö áhyggjuefni, annars vegar kostnaður og hins vegar þjóðaröryggismál eru hlutir sem við horfum á alla daga,“ segir framkvæmdastjóri SFF.
Komi upp miklir óvissutímar í alþjóðamálum geti Íslendingar áfram stuðst við millifærslur innanlands.
„Og svo eru náttúrlega líka peningar ef eitthvað myndi gerast snögglega. Þetta spurning um að láta reyna á að ná þessari lausn í samningum og þróa þetta saman,“ sagði Heiðrún Jónsdóttir.