Á sama tímabili jókst salan þar í landi á símum kínverska fyrirtækisins Huawei um 64 prósent. Heilt yfir dróst sala á snjallsímum í Kína saman um sjö prósent á fyrstu sex vikum ársins, miðað við í fyrra.
Þetta kemur fram á vef BBC, en ekki náðist í talsmenn Apple og Huawei við vinnslu fréttarinnar.
Hart hefur verið í ári hjá Huawei síðastliðin ár, en fyrirtækið hefur sætt viðskiptaþvingunum af hálfu Bandaríkjanna sem hindra aðgang þeirra að tækjum og vörum sem notaðar eru í snjallsímagerð.
Um er að ræða meðal annars örflögur sem símar þurfa fyrir 5G-samband. Þetta olli miklum vandræðum í rekstri þeirra þangað til nú í ágúst síðastliðnum þegar Mate 60-síminn þeirra fór á markað og rokseldist.
Huawei sækir í sig veðrið
Huawei og undirfyrirtæki þess, Honor, voru einu stóru símaframleiðendurnir sem juku sölu sína í Kína á fyrstu vikum ársins. Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutdeild Apple á kínverska snjallsímamarkaðnum á síðasta ári hafi fallið úr nítján prósentum niður í 15,7 prósent. Apple fellur úr öðru sætinu niður í fjórða.
Markaðshlutdeild Huawei jókst allverulega, fór úr 9,4 prósentum í 16,5 prósent, en þau sitja nú í öðru sæti. Vivo er ennþá með stærstu markaðshlutdeildina þrátt fyrir að sala þeirra hafi hrunið um 15 prósent á síðasta ári.
Tekjur Apple minnka
Minnkandi eftirspurn í Kína gæti haft áframhaldandi neikvæð áhrif á tekjur Apple í Kína, sem hafa ekki staðið undir væntingum síðastliðna mánuði. Síðustu þrjá mánuði ársins 2023 voru tekjurnar 20,82 milljarðar dollara, en voru árið áður 23,9 milljarðar.
Hlutabréfaverð í Apple féll um 2,8 prósent á þriðjudaginn.