Greint var frá fyrirhuguðum samruna mótaraðanna síðasta sumar en mikill ágreiningur hafði þá ríkt á milli kylfinga sem leikið höfðu á LIV-mótaröðinni og þeirra sem völdu að halda sig á hinni klassísku PGA-mótaröð. LIV-mótaröðin er styrkt af sádiarabískum yfirvöldum og margir kylfingar vildu ekki taka þátt í íþróttahvítþvottinum sem þeir vildu meina á mótaröðin væri.
Það kom því nokkuð á óvart þegar tilkynnt var um samruna mótaraðanna í júní. Síðan þá hefur lítið gerst og á blaðamannafundi á þriðjudag sagði Jay Monahan, æðsti maður PGA-mótaraðarinnar, að lítið væri að frétta.
„Viðræður standa yfir, meira en svo get ég ekki sagt. Ég skil að þið hafið vonast eftir frekari upplýsingum en ég get ekki farið í smáatriði akkúrat núna,“ sagði Monahan en þetta var í fyrsta skipti í sjö mánuði sem hann ræddi við fjölmiðla.
Kylfingarnir til viðræðna
Golfheimurinn er í raun klofinn þar sem stigin sem kylfingar á LIV-mótaröðinni vinna sér inn telja ekki á heimslistanum. Markmiðið er að finna lausn sem hentar báðum mótaröðum en enn er enginn samningur í höfn.
Hingað til hafa kylfingarnir sjálfir ekki verið hluti af samningaviðræðum en það mun líklega breytast á næstunni.
„Við höfum verið hvattir til að mögulega hitta þá,“ sagði Jordan Spieth sem er í stjórn nýrrar deildar PGA-mótaraðarinnar sem kallast PGA Tour Enterprises. Ásamt Spieth eru þeir Tiger Woods, Patrick Cantlay, Peter Malnati, Adam Scott og Webb Simpson í forsvari og búist er við að þeir verði kallaðir til fundar.
„Ég veit ekki hvort ég get sagt mikið meira. Við teljum að við sem sitjum í stjórn ættum að vera upplýstir um gang mála,“ bætti Spieth við.