Í vikunni fengu foreldrar leikskólabarna í Brákarborg bréf frá borginni, þar sem fram kom að starfsemi leikskólans yrði færð yfir í húsnæði við Ármúla 28-30 á meðan unnið væri að viðgerð á húsnæði Brákarborgar. Mikillar óánægju gætir hjá hópi foreldra, sem segja húsnæðið í Ármúla óboðlegt leikskólabörnum.
Húsnæðið verði gert leikskólavænt
„Þetta er rúmgott húsnæði, það er ekkert æðislegt útisvæði, en það er verið að reyna gera það leikskólavænt. Svo er verið að búa til leikfimisal þarna inni, það eru margir möguleikar innandyra,“ segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar.
Varðandi þá ákvörðun að hætta við að senda sjötta bekk yfir í Ármúlahúsnæðið fyrir nokkrum árum, segir hún að umræðan hafi þá að miklu leyti snúist um að krakkarnir þyrftu að ganga yfir umferðargötur til að komast í skólann. Það eigi ekki við í tilfelli leikskólabarnanna.
Þar vísar hún í ummæli foreldra um að Ármúlahúsnæðið hafi ekki þótt nægilega gott fyrir sjötta bekk Langholtsskóla, en þyki nú nógu gott fyrir leikskólabörn.
Stuttur tími í Ármúla ef allt fer á besta veg
Það liggi ekki fyrir hversu lengi starfsemin þurfi að vera í Ármúla. „Ef allt fer á besta veg varðandi skoðun á húsnæði Brákarborgar, þá verður þetta bara stuttur tími. Ef allt fer á versta veg verður þetta lengri tími,“ segir Eva.
„Það er náttúrulega ekkert hlaupið að því, það er ekki eins og við séum með leikskólahúsnæði sem bíður tómt, það þarf að bregðast við eins og hægt er,“ segir Eva.