Eins og fram hefur komið hefur þrálátur orðrómur verið uppi um margra vikna skeið að sambandi þeirra sé svo gott sem lokið. Þau hafa ekki sést saman á opinberum vettvangi síðan í mars síðastliðnum. Þau giftu sig fyrir tveimur árum eftir að hafa endurnýjað kynnin tuttugu árum eftir að hafa verið síðast saman.
„Hún er brjáluð,“ hefur PageSix eftir ónefndum heimildarmanni um tilfinningar Jennifer Lopez í garð Ben Affleck. „Hann hefur niðurlægt hana. Hann er sá sem vildi að þau byrjuðu saman aftur.“
Sagði henni að hún væri stóra ástin
Affleck og Lopez fóru fyrst að stinga saman nefjum að nýju í júlí árið 2021. Þau áttu í frægu ástarsambandi árin 2002 til 2004. Að sögn heimildarmannsins gerði Ben Affleck mikið úr því við söngkonuna að hún væri stóra ástin í lífi hans.
„Þetta er niðurlæging vegna þess að hann gerði mikið úr því að hún væri ástin í lífi hans. Þau giftu sig tvisvar fyrir tveimur árum. Þetta hlýtur að vera einhverskonar met, þau eru ekki ungir krakkar,“ hefur slúðurmiðillinn eftir heimildarmanninum.
Hjónin giftu sig í Las Vegas í júlí árið 2022 en héldu svo annað brúðkaup á heimili leikarans í Georgíu mánuði síðar. Að sögn heimildarmannsins flækir það einnig skilnaðinn að börn þeirra séu í spilinu. Lopez hafi af þeim sökum átt erfitt með að sætta sig við að þessu sé í raun lokið.
Þá er fullyrt að það hafi hægt á gangi mála að leikararnir talist ekki lengur við með neinum hætti. Affleck vilji ekki niðurlægja söngkonuna frekar og fresti því þess vegna að sækja um skilnað. „Hann finnur til ábyrgðar og vill vernda hana með þessu,“ segir heimildarmaðurinn.