Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir, Eygló Friðriksdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Jónína Einarsdóttir, Kristín Björnsdóttir, Lilja Margrét Möller, Linda Ósk Sigurðardóttir og Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifa

Undirritaðar, fulltrúar kennara í Reykjavík, áttu fund með Einari Þorsteinssyni borgarstjóra í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, vegna ummæla hans á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um kennara. Ummælin vöktu mikla reiði kennarasamfélagsins og kennarar mótmæltu þeim við Ráðhús Reykjavíkur síðastliðinn þriðjudag.

Á fundinum baðst borgarstjóri afsökunar á ummælum sínum um kennara og undirrituðum gafst tækifæri til að veita honum innsýn í kennarastarfið, jafnt í leik- og grunnskólum.

Stórt verkefni er fram undan sem er að tryggja öllum börnum vel menntaða kennara en skólarnir standa nú frammi fyrir stöðugt vaxandi mönnunarvanda.

Til að laða fólk í kennslu á ný þarf að setja menntamál á oddinn í Reykjavík og tala af virðingu um kennarastarfið. Einnig var bent á mikilvægi þess að kennurum stæðu til boða samkeppnishæf laun og því þyrfti að leysa kjaradeiluna sem fyrst.

Starfsaðstæður kennara voru til umræðu, verkefnafjöldi á herðum kennara, hópastærðir og það ófremdarástand sem ríkir í húsnæðismálum skólanna en mikið er um rakaskemmdir og myglu í skólum borgarinnar sem hefur áhrif á heilsu starfsfólks og nemenda.

Rætt var um mikilvægi þess að borgarstjóri sem æðsti yfirmaður kennara talaði ætíð á jákvæðan og uppbyggilegan hátt um kennara jafnt á opinberum vettvangi sem annars staðar og setti sig vel inn í þeirra mál.

Á fundinum var lagt til að annar fundur yrði skipulagður með sömu fulltrúum að nokkrum vikum liðnum. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og viljum sjá Reykjavík í fararbroddi í menntamálum. Til þess þarf vel menntaða, sátta kennara.

Virðingarfyllst,

Kristín Björnsdóttir formaður Kennarafélags Reykjavíkur

Lilja Margrét Möller varaformaður Kennarafélags Reykjavíkur

Eygló Friðriksdóttir formaður Skólastjórafélags Reykjavíkur

Þóranna Rósa Ólafsdóttir varaformaður Skólastjórafélags Reykjavíkur

Linda Ósk Sigurðardóttir formaður 1. deildar Félags leikskólakennara

Andrea Sigurjónsdóttir varaformaður 1. deildar Félags leikskólakennara

Guðrún Gunnarsdóttir formaður 1. deildar Félags stjórnenda í leikskólum

Jónína Einarsdóttir varaformaður 1. deildar Félags stjórnenda í leikskólum

Höfundar eru formenn og varaformenn félaga kennara og stjórnenda í leik- og grunnskólum borgarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×