Adidas sleit samstarfinu vegna endurtekinnar særandi hegðunar og furðulegra ummæla Ye. Rapparinn hafði þá farið mikinn á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, þar sem hann lét allt flakka og spúði gyðingahatri.
Fyrr á árinu hafði Ye einnig verið iðinn við að viðra umdeildar og ögrandi skoðanir eins og honum einum er lagið. Hann sætti mikilli gagnrýni þegar hann klæddist bol með áletruninni „White lives matter“ á tískusýningu í París.
Rapparinn fullyrti að Black lives matter hreyfingin hefði verið svik og svaraði gagnrýninni á sig með þeim hætti að verið væri að rífa niður svartan mann fyrir að hafa aðra pólitíska skoðun.
Engar greiðslur í sáttasamkomulaginu
Bjorn Gulden forstjóri Adidas neitaði að tjá sig um samkomulagið að öðru leyti en að engir peningar væru í spilinu. „Báðir aðilar halda bara áfram,“ sagði hann.
Yeezy skórnir sem Ye gerði með Adidas höfðu notið gífurlegra vinsælda, og kostaði parið af þeim marga tugi þúsunda íslenskra króna. Adidas hætti að selja skóna á sínum tíma en seldi hluta af lagernum á síðasta ári á afsláttarverði.
Fyrir rúmum mánuði síðan hélt Ye tónleika í Seul í Kóreu, og þá fékk hann tónleikagesti til að öskra með sér „Fuck Adidas!“ aftur og aftur.
Watch on TikTok