Fótbolti

Hjálpaðu Glódísi að komast í heimsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar eftir sigurinn glæsilega á Þjóðverjum í sumar. Með honum tryggðu Íslendingar sér sæti á EM 2025.
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar eftir sigurinn glæsilega á Þjóðverjum í sumar. Með honum tryggðu Íslendingar sér sæti á EM 2025. vísir/anton

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins, kemur til greina í heimsliðið í fótbolta. Íslendingar geta hjálpað henni að komast í það með því að kjósa hana á heimasíðu FIFA.

Glódís hefur átt frábært ár með Bayern og íslenska landsliðinu. Bæjarar urðu þýskir meistarar síðasta vor og Ísland tryggði sér sæti á EM 2025 í sumar.

Frammistaða Glódísar hefur vakið mikla athygli og hún hefur fengið viðurkenningar fyrir. Hún var meðal annars í 22. sæti í Gullboltakjörinu. Hún var efsti miðvörðurinn í kjörinu og þriðji efsti varnarmaðurinn.

Glódís er einnig einn þeirra varnarmanna sem koma til greina í heimslið FIFA. Hægt er að kjósa hana í liðið með því að smella hér.

Glódís og stöllur hennar í íslenska landsliðinu mæta Dönum í vináttulandsleik á Pinatar á Spáni klukkan 17:00 í dag. Á föstudaginn gerðu Íslendingar markalaust jafntefli við Kanadamenn á Pinatar.

Hin 29 ára Glódís lék sinn 131. landsleik gegn Kanada. Hún er þriðja leikjahæst í sögu landsliðsins. Aðeins Sara Björk Gunnarsdóttir (145) og Katrín Jónsdóttir (133) hafa leikið fleiri leiki fyrir Ísland en Glódís sem bætir metið væntanlega á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×