Enski boltinn

Draumabyrjun hjá Nistelrooy

Sindri Sverrisson skrifar
Patson Daka og fyrirliðinn Conor Coady kampakátir í sigri Leicester í kvöld.
Patson Daka og fyrirliðinn Conor Coady kampakátir í sigri Leicester í kvöld. Getty/Michael Regan

Ruud van Nistelrooy fékk í kvöld draumabyrjun sem stjóri Leicester, þegar liðið vann West Ham 3-1. Að sama skapi hangir starf Julen Lopetegui, stjóra Hamranna, á bláþræði.

Markahrókurinn Jamie Vardy var ekki nema rúma mínútu að skora fyrsta markið undir stjórn Nistelrooy, eftir sendingu frá Bilal El Khannouss. Það tók sinn tíma að skoða hvort um rangstöðu væri að ræða en að lokum var markið dæmt gott og gilt.

El Khannouss skoraði svo sjálfur annað mark Leicester eftir um klukkutíma leik og Patson Daka innsiglaði sigurinn í lokin, þó að Niclas Füllkrug næði aðeins að laga stöðuna í uppbótartíma.

Leicester er þar með fjórum stigum frá fallsæti, með þrettán stig í 15. sæti, tveimur stigum á eftir West Ham.

Crystal Palace er svo í 16. sæti með 12 stig eftir að hafa unnið 1-0 útisigur á Ipswich fyrr í kvöld. Jean-Philippe Mateta skoraði sigurmarkið á 59. mínútu, eftir stungusendingu frá Ebererchi Eze. Ipswich er áfram í fallsæti með 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×