Óðinn skoraði níu mörk úr tíu skotum í leiknum og var markahæstur í liði Kadetten. Fjögur markanna komu úr vítaköstum.
Þetta er aðeins annar deildarleikurinn í vetur sem Kadetten vinnur ekki. Liðið er með 27 stig á toppi deildarinnar, sjö stigum á undan Kriens-Luzern.
Hrun í seinni hálfleik
Guðmundur Bragi Ástþórsson og félagar hans í Bjerringbro/Silkeborg töpuðu sínum öðrum leik í röð í dönsku úrvalsdeildinni þegar topplið GOG kom í heimsókn. Lokatölur 26-28, gestunum í vil.
Bjerringbro/Silkeborg var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16-12, og eftir 36 mínútur leiddu heimamenn með fimm mörkum, 19-14. En þá hrundi leikur liðsins. Það skoraði aðeins sjö mörk á síðustu 24 mínútum leiksins gegn 14 mörkum GOG.
Guðmundur Bragi skoraði þrjú mörk fyrir Bjerringbro/Silkeborg, öll úr vítum. Liðið, sem hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum, er í 4. sæti deildarinnar með sautján stig.