Enski boltinn

Amorim tjáir sig um brott­hvarf Ashworths: „Ekki besta staðan“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Rubens Amorim hafa tapað tveimur leikjum í röð.
Strákarnir hans Rubens Amorim hafa tapað tveimur leikjum í röð. getty/Clive Brunskill

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að brotthvarf Dans Ashworth frá félaginu sé ekki ákjósanlegt.

Ashworth var látinn fara sem íþróttastjóri United eftir tapið fyrir Nottingham Forest, 2-3, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

United lagði mikið á sig til að tryggja sér starfskrafta Ashworths en félagið greiddi Newcastle United væna summu fyrir hann. En eftir aðeins fimm mánuði í starfi ákvað Sir Jim Ratcliffe, sem á rúman fjórðung í United, að reka Ashworth. Amorim var spurður út í brotthvarf hans á blaðamannafundi í gær.

„Það fyrsta sem ég vil segja er að frá fyrsta degi hef ég fengið frábæran stuðning frá eigendunum. Dan var hluti af því og ég fann fyrir miklum stuðningi frá honum,“ sagði Amorim.

„En þetta er fótbolti og stundum gerist svona lagað. Þetta gerist með leikmenn og þjálfara. Ég veit að þetta er ekki besta staðan en það mikilvægasta er að við höldum áfram. Leiðin er greið fyrir alla og ég held að þetta geti gerst í fótbolta.“

Amorim var einnig spurður hvort staðan hjá United væri óstöðugari en þegar hann kom til félagsins fyrir mánuði.

„Ég held ekki. Allt frá fyrsta degi hef ég fundið fyrir stuðningi frá öllum svo fjarvera eins manns breytir engu. En auðvitað er þetta slæmt því við erum að tala um manneskju og fagmann sem styður okkur sem lið. Það mikilvægasta er að sýnin sé skýr og það breytist ekki með brotthvarfi eins manns,“ sagði Amorim.

United mætir Viktoria Plzen á útivelli í Evrópudeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 17:45 og verður sýndur beint á Vodafone Sport.


Tengdar fréttir

Sker niður jólagjöfina til starfsfólks United

Sir Jim Ratcliffe heldur áfram að skera niður hjá Manchester United og nú hefur hann ákveðið að gefa starfsfólki félagsins ódýrari jólagjöf en áður hefur tíðkast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×