Enski boltinn

Guardiola vill fá þrennu-Grealish aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jack Grealish hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu.
Jack Grealish hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. getty/Chris Brunskill

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur skorað á Jack Grealish að sýna það sama og þegar liðið vann þrennuna tímabilið 2022-23.

Grealish hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri. Hann skoraði til dæmis ekki mark fyrir City á árinu 2024 og hefur aðeins byrjað sex leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Á meðan hefur Savinho, sem kom til City frá Girona síðasta sumar, fundið fjölina sína og Guardiola segist veðja á Brassann um þessar mundir.

„Savinho er í betra formi og allt en Jack og þess vegna spilaði hann,“ sagði Guardiola en Savinho lagði upp tvö mörk fyrir Erling Haaland í 4-1 sigrinum á West Ham United á laugardaginn.

„Vil ég fá Jack sem vann þrennuna? Já, ég vil það en ég reyni að vera heiðarlegur við sjálfan mig með það. Þeir verða að berjast. Þér getur fundist það ósanngjarnt og það er allt í lagi en þú verður að sanna fyrir mér: Ok, ég ætla að berjast við Savinho til að verðskulda að spila í þessari stöðu, alla daga, allar vikur og alla mánuði.“

City keypti Grealish frá Aston Villa fyrir hundrað milljónir punda 2021. Hann er dýrasti leikmaður í sögu City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×