Lífið

Hæðst að þrútnum og afskræmdum vara­for­setanum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Alls konar útgáfur af afskræmdum JD Vance hafa skotið upp kollinum á samfélagsmiðlinum X. Ekki sér fyrir endann á Vance-flóðinu.
Alls konar útgáfur af afskræmdum JD Vance hafa skotið upp kollinum á samfélagsmiðlinum X. Ekki sér fyrir endann á Vance-flóðinu.

Eftir afdrifaríkan fund Úkraínuforseta með ráðamönnum Bandaríkjanna í Hvíta húsinu á föstudag hafa myndir af skrumskældum og afar þrútnum JD Vance farið eins og eldur í sinu samfélagsmiðla.

Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti fundaði þar með Donald Trump Bandaríkjaforseta og varaforsetanum JD Vance. Stemmingin varð fljótt óþægileg og orðskiptin kaldranaleg; Trump og Vance sökuðu Selenskí um virðingarleysi og sögðu hann hætta á heimsstyrjöld.

Vance og Trump saumuðu að Selenskí sem svaraði fullum hálsi.Vísir/Getty

Á einum tímapunkti á spennuþrungnum fundinum spurði Vance: „Hefurðu sagt takk einu sinni?“

Hvíta húsið reyndi að snúa spurningunni upp í styrkleikamerki fyrir Vance á miðlinum X meðan flestir aðrir sem tjáðu sig um hana virtust sjá hana sem frekjulega og kjánalega. 

Grínarar alnetsins vöknuðu í kjölfarið til lífsins og skömmu eftir fundinn fæddist nýtt „mím“ (e. meme).

Einn fyrsti brandarinn sem vakti athygli innihélt mynd af Vance í sófanum í Hvíta húsinu. Á myndinni er búið að blása aðeins út andlit Vance og hann segir: „Þú þarft að þegja tvakk, heþra Þenþkí.“

Grínið vatt upp á sig og með hverjum nýjum brandara varð Vance afskræmdari. Framan voru það litlar breytingar þar sem bollukinnarnar urðu enn stærri eða augnaráðið meira skerandi.

Kinnarnar stækkuðu og stækkuðu en síðan tók grínið stakkaskiptum. Vance hóf að umbreytast og nýjar útgáfur af Vance fæddust: svarthærður svartmálaður goth-Vance, skósveina-Vance, Kim Jong Vance og síðhærður þrívíddar-Vance.

Einhverjir höfðu orð á því að Vance-straumurinn væri orðinn svo stríður að þeir vissu ekki lengur hvernig varaforsetinn liti út.

Einn X-verji sagðist ekki geta lengur fylgst með fréttum af heimsmálunum á X (áður Twitter) af því það eina sem kæmi upp á samfélagsmiðlinum væru myndir af Vance. Annar hafði orð á því að sagnfræðingar framtíðarinnar myndu ekki geta greint á milli raunverulegra og falsaðra mynda af varaforsetanum.

Varaforsetar sem hirðfífl

Varaforseti Bandaríkjanna er valdalítið embætti og hafa varaforsetar í gegnum tíðina stundum tekið að sér hlutverk eins konar hirðfífla. Sjónvarpsþættirnir Veep með Juliu Louis-Dreyfus fjalla að miklu leyti um þetta. 

Dan Quayle, varaforseti George H.W. Bush, stafsetti „potato“ vitlaust í stafsetningarkeppni árið 1992 og fékk aldrei að gleyma því. Joe Biden var alltaf léttur og kátur sem varaforseti rétt eins og Kamala Harris síðar.

Vance hefur áður verið skotspónn gríns netverja en í kosningabaráttunni á síðasta ári varð til sú flökkusaga að hann hefði riðlast á sófa. Rétt eins og grínið sem ræður ríkjum núna varð sófagrínið mjög áberandi í umræðunni í marga daga.

Julio Rosas, blaðamaður íhaldsmiðilsins The Blaze, bar afskræmingargrínið undir varaforsetann í gær og virðist Vance hafa húmor fyrir sjálfum sér því hann sagði grínið vera fyndið.

Vance veit kannski líka að ef hann myndi reyna að hafa stjórn á umræðunni þá myndi það sennilega bara springa í höndunum. Hann veit að eina leiðin til að láta grín hverfa er að leyfa því að deyja náttúrulega.

Uppfært: Degi eftir að þessi frétt birtist setti Vance færslu á X þar sem hann tók beinan þátt í gríninu með mynd af DiCaprio-Vance úr Once Upon a Time in Hollywood.


Tengdar fréttir

Hver er J.D. Vance?

Á landsþingi Repúblikanaflokksins í Wisconsinfylki í gær var tilkynnt að J.D. Vance yrði varaforsetaefni Trumps í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Vance er ekki ýkja þekktur á heimsvísu en hefur verið þekkt stærð í bandarískum stjórnmálum síðan hann var kjörinn öldungadeildarþingmaður árið 2022, 38 ára að aldri.

Þykir leiðinlegt hvernig fundurinn fór

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir Úkraínumenn tilbúna að koma að samningaborðinu með Rússum og Bandaríkjamönnum og það í hvelli. Hann segist jafnframt tilbúinn að skrifa undir samning sem myndi veita Bandaríkjunum aðgang að jarðefnum í Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.