Skoðun

Hvað þýðir niður­staða Alþjóða­dómstólsins fyrir við­skipti ís­lenskra aðila við Ra­pyd?

Björn B. Björnsson skrifar

Fjármálafyrirtækið Rapyd er mjög þjóðernissinnað og herskátt ísraelskt fyrirtæki sem stundar viðskipti í landtökubyggðum Ísraela í Palestínu og tekur einnig beinan þátt í hernaði Ísraels á Gaza.

Rapyd keypti íslenska fyrirtækið Valitor árið 2021 og breytti nafni þess í Rapyd Europe. Útibúið á Íslandi er alfarið í eigu Rapyd og stjórnarformaður þess er jafnframt forstjóri Rapyd í Ísrael.

Hann sagði nýlega í viðtali að Rapyd hefði tapað umtalsverðum viðskiptum vegna sniðgöngu en að hann sé stoltur af afstöðu fyrirtækisins og ef viðskiptavinir vilji fara frá Rapyd vegna þessa þá sé það í góðu lagi.

Niðurstaða Alþjóðadómstólsins í Haag.

Árið 2022 var Ísland eitt þeirra landa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem beindi spurningum til Alþjóðadómstólsins í Haag vegna hernumdu svæða Ísraels í Palestínu.

Núna í haust skilaði dómstóllinn niðurstöðu þar sem segir afdráttarlaust að hernám Ísraels á Palenstísku landi sé ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum.

Í áliti dómstólsins segir að öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna beri skylda til að leita allra leiða sem þau hafa yfir að ráða til að binda enda á þetta ólöglega hernám - og þau mega ekki gera neitt sem styður eða styrkir yfirráð Ísraels á hernumdu svæðunum.

Hér er hægt að lesa dóminn: https://www.icj-cij.org/sites/default/files/case-related/186/186-20240719-adv-01-00-en.pdf

Viðskipti við Rapyd styrkja og efla fyrirtæki sem starfar á hernumdu svæðunum í Palestínu og styrkja þannig þetta ólöglega hernám.

Íslenskum fyrirtækijum, stofnunum og félagasamtökum ber skylda til að starfa í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Viðvaranir frá mörgum löndum.

Síðasta sumar, áður en álit Alþjóðadómstólsins var birt, ítrekaði norska utanríkisráðuneytið aðvörun til fyrirtækja um að með því að eiga viðskipti við fyrirtæki sem starfa á hernumdu svæðum Ísraels í Palestínu væru þau að brjóta alþjóðalög þar á meðal um mannréttindi. Sams konar viðvaranir hefur Evrópusambandið og mörg ríki gefið út.

Þessar aðvaranir eiga líka við um íslenska lögaðila.Það er grafalvarlegt ef fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök ganga gegn alþjóðalögum og skuldbindingum Íslands og slík mál geta vel endað fyrir dómstólum.

Rapyd tekur beinan þátt í mannrápunum.

Ísraelska fyrirtækið Rapyd tekur beinan þátt í hernaðinum á Gaza og vinnur með ísraelska hernum í þessu stríði sem hjálpar- og mannréttindasamtök eins og Amnesty International segja að sé þjóðarmorð.

Bein þáttaka Rapyd í manndrápunum á Gaza miðar augljóslega að því að viðhalda og styrkja ólöglegt hernám Ísraels á palestínsku landi og gengur því þvert gegn niðurstöðu Alþjóðadómstólsins.

Margar brýnar ástæður.

Dómstóllinn segir að Íslandi beri skylda til að gera allt sem í okkar valdi sé til að binda enda á hernámið í Palestínu. Viðskipti við Rapyd eru sannarlega á okkar valdi.

En það eru fleiri brýnar ástæður til að hætta viðskiptum við Rapyd eins og vel á fimmta hundruð íslenskra fyrirtækja hafa þegar gert samkvæmt vefsíðunni hirdir.is þar sem almenningur fylgist með viðskiptum fyrirtækja við Rapyd.

Áhætta.

Orðsporsáhætt þeirra aðila sem skipta við Rapyd er mikil. Alþjóðadómstóllinn sagði í bráðabirgðaúrskurði á síðasta ári að stríðið á Gaza sé sennilega þjóðarmorð. Endanlegur úrskurður dómstólsins er væntanlegur.

Það væri ljótur blettur á sögu hvaða fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka sem er að hafa átt viðskipti við fyrirtæki sem er sekt um þáttöku í þjóðarmorði. Vitandi vel að sú sé raunin. Sú saga er vel skráð og mun ekki gleymast.

Nýir Íslendingar.

Fjöldi fólks frá Palestínu hefur fengið hæli á Íslandi og er nú hluti af okkar samfélagi. Það er ekki siðferðilega verjandi að bjóða þessu fólki upp á að eiga viðskipti við opinberar stofnanir, félagasamtök eða fyrirtæki á Íslandi í gegnum ísraelska fyrirtækið Rapyd sem tekur beinan þátt í stríði gegn fjölskyldum þeirra, ættingjum og vinum á Gaza. Við getum sjálf sett okkur í þau spor.

Mikill meirihluti Íslendinga vill ekki skipta við fyrirtæki sem nota Rapyd.

Samkvæmt könnun vill mikill meirihluti Íslendinga ekki eiga nein viðskipti við þau fyrirtæki sem nota Rapyd sem greiðslumiðil.

Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem skipta við Rapyd ganga því þvert gegn vilja almennings með því að skipta við Ísraelskt fyrirtæki sem mikill meirhluti þjóðarinnar vill alls ekki eiga nein viðskipti við af samviskuástæðum.

Hvers vegna í ósköpunum ættu fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök að ganga gegn einlægum siðferðislegum vilja meirihluta fólksins í landinu?

Einfalt að skipta.

Það er einfalt að skipta um færsluhirði eins og reynsla hundruða íslenskra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sýnir.

Rökin fyrir því að skipta frekar við íslensk fyrirtæki en hið ísraelska Rapyd eru mörg - og öll góð. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Hættum öllum viðskiptum við Rapyd - strax í dag.

Höfundur er áhugamaður um mannréttindi.




Skoðun

Sjá meira


×