Innlent

Guð­mundur Ingi á­varpaði mennta­fólk á leið­toga­fundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Ingi ávarpar samkomuna. Guðbjörg aðstoðarkona hans situr fyrir aftan hann.
Guðmundur Ingi ávarpar samkomuna. Guðbjörg aðstoðarkona hans situr fyrir aftan hann.

Guðmundur Ingi Kristinsson nýr mennta- og barnamálaráðherra segir áskoranir í skólakerfinu aukst og samfélagið standi á tímamótum. Hann vonar að að leiðtogafundur í menntamálum hjálpi til við sameiginlegt markmið þátttakenda að gefa kennurum tólin til að hjálpa börnum að mæta áskorunum sínum.

Þetta kom fram í opnunarávarpi Guðmundar Inga í Silfurbergi í Hörpu í morgun. Guðmundur Ingi tók við embætti mennta- og barnamálaráðherra af Ásthildi Lóu Þórsdóttur á sunnudag og ræðan á leiðtogafundinum er hans fyrsta opinbera embættisverk.

Guðmundur Ingi sagði í ræðu sinni að undanfarin ár hefðu áskoranir í skólakerfinu aukist enn frekar og þar stæðum við á tímamótum. Breytingar á samfélaginu gerðust hraðar en ráðið væri við. Þar hefði tæknin mikil áhrif.

Skólastofurnar væru orðnar flóknari þar sem börn af ólíkum uppruna sem glími við alls konar áskoranir komi saman. Huga þurfi að rökhugsun nemenda og velferð þeirra. Til að það geti gerst þurfti að valdefla kennara með öflugu menntakerfi. Leiðtogafundurinn væri mikilvægur vettvangur til þess.

„Ég veit að umræður okkar í dag munu hjálpa til við sameiginlegt markmið okkar - hvernig við gefum skólum tólin til að hjálpa börnum að mæta áskorunum,“ sagði Guðmundur Ingi og þakkaði gestum fyrir að leggja leið sína á fundinn sem hann vonaði að yrði góður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×