Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi að krafist hafi verið áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir karlmönnunum þremur í gær. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglustjórans.
Fyrri kröfur um gæsluvarðhald hafa verið á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafa karlmennirnir þrír sætt einangrun. Nú er krafan á grundvelli almannahagsmuna og losna þeir úr einangrun klukkan fjögur síðdegis.
Karlmaðurinn, Hjörleifur Haukur Guðmundsson, fannst snemma að morgni þriðjudagsins 11. mars við göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Hann var þungt haldinn og lést skömmu eftir komu á slysadeild Landspítalans.
Lögregla hefur sagt rannsókn málsins miða vel. Lögreglan á Suðurlandi hefur við rannsóknina notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis héraðssaksóknara og embættis ríkislögreglustjóra.