Formúla 1

„Þetta var hræði­legt og 2025 verður sárs­auka­fullt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Illa hefur gengið hjá Lewis Hamilton í upphafi tímabilsins í Formúlu 1.
Illa hefur gengið hjá Lewis Hamilton í upphafi tímabilsins í Formúlu 1. getty/Alex Pantling

Sjöfaldi heimsmeistarinn Lewis Hamilton sagði að kappaksturinn í Sádí-Arabíu hefði verið hræðilegur hjá sér og árið 2025 yrði erfitt.

Hamilton hefur ekki farið vel af stað með Ferrari og í gær lenti hann í 7. sæti í sádí-arabíska kappakstrinum. Samherji hans, Charles Leclerc, endaði í 3. sæti en það var í fyrsta sinn sem ökumaður Ferrari kemst á verðlaunapall á tímabilinu.

„Ekkert jákvætt sem er hægt að taka frá deginum í dag fyrir utan að Charles komst á pall sem var frábært fyrir liðið,“ sagði Hamilton hreinskilinn eftir kappaksturinn í Jeddah í Sádí-Arabíu í gær.

„Þetta var hræðilegt, alls ekki ánægjulegt. Ég rann bara um. Þetta var frekar slæmt.“

Hamilton á ekki von á að ástandið lagist mikið en næsti kappakstur fer fram í Miami sunnudaginn 4. maí.

„Ég veit ekki hversu lengi ég verð í vandræðum en þetta er klárlega sársaukafullt. Ég reyni bara að bæta mig viku frá viku. Í augnablikinu er engin lausn svo þetta verður svona út árið. Þetta verður sársaukafullt,“ sagði Hamilton.

Hann er í 7. sæti í keppni ökuþóra með 31 stig, 68 stigum á eftir forystusauðnum Oscar Piastri á McLaren.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×