Körfubolti

Slógu toppliðið út og komust í austur úr­slitin annað árið í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Indiana Pacers slógu toppliðið út og komust í úrslit austurdeildar NBA annað árið í röð. 
Indiana Pacers slógu toppliðið út og komust í úrslit austurdeildar NBA annað árið í röð.  Getty/Jason Miller

Indiana Pacers unnu einvígið gegn toppliði Cleveland Cavaliers í aðeins fimm leikjum og komust þar með í úrslit austurdeildar NBA annað árið í röð. Slakasta deildarkeppnislið sögunnar til að afreka það.

Pacers eru nefnilega fyrsta liðið frá upphafi úrslitakeppninnar sem kemst í úrslit austurdeildarinnar tvisvar í röð eftir að hafa endað í fjórða sæti eða neðar. Pacers enduðu í sjötta sæti á síðasta ári og fjórða sæti í ár. Þá er þetta í annað sinn í sögunni sem Pacers komast í úrslit tvö ár í röð, síðast árin 2013 og 2014. 

Pacers tóku 2-0 forystu í einvíginu gegn Cavaliers, sem minnkuðu muninn með sigri á útivelli í þriðja leik, en töpuðu næstu tveimur leikjum, og einvíginu 4-1.

Í útsláttarleiknum í nótt tóku Cavaliers góða nítján stiga forystu í fyrri hálfleik, en létu undan í seinni hálfleik og töpuðu að lokum 114-105. Tyrese Haliburton fór mestan fyrir Pacers, með 31 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar, setti sex þriggja stiga skot ofan í.

Pacers munu mæta annað hvort New York Knicks eða Boston Celtics í úrslitum austursins. Knicks leiða einvígið 3-1 og Celtics eru án stjörnuleikmannsins Jayson Tatum.

Í vestrinu í nótt vann Oklahoma City Thunder 112-105 á heimavelli gegn Denver Nuggets og tók 3-2 forystu í einvíginu. Nuggets leiddu frá upphafi og voru átta stigum yfir fyrir fjórða leikhlutann, en OKC átti gott áhlaup, þar sem meðal annars setti Lu Dort þrjá þrista í röð.

Nikola Jokic átti stórkostlegan leik, skoraði 44 stig, greip 15 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal boltanum tvisvar. Leikstjórnandinn Jamal Murray sömuleiðis með frábæran leik, en liðið hefði þurft meira framlag frá öðrum leikmönnum.

Líkt og hjá OKC þar sem stigaskorun dreifðist mjög jafnt, allir byrjunarliðsmenn og sjötti maðurinn settu meira en tveggja stafa tölur á stigatöfluna. Shai-Gilgeous Alexander endaði stigahæstur með 31 stig, greip 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar að auki.

OKC getur klárað einvígið á útivelli í næsta leik en Nuggets geta knúið fram oddaleik. Sigurvegari einvígisins mætir svo annað hvort Minnesota Timberwolves eða Golden State Warriors í úrslitum vestursins en Timberwolves eru 3-1 yfir og geta klárað einvígið í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×