Akureyringurinn Bryndís Rún Hansen, sundkona úr Óðni, bætti sitt eigið Íslandsmet í 50 metra flugsundi í morgun á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi.
Metsund Bryndísar dugaði henni í 21. sæti af 65 keppendum en sextán efstu tryggðu sér sæti í undanúrslitunum.
Bryndís Rún synti á 26,79 sekúndum í 50 metra flugsundinu í dag en gamla metið hennar var sund upp á 26,92 sekúndur síðan á Íslandsmeistaramótinu í apríl.
Þetta var mun betri árangur hjá Bryndísi en í 100 metra skriðsundinu þar sem hún varð í 45. sæti en það var hennar fyrsta grein á stórmóti sem þessu.
Nú bjó Bryndís að þeirri reynslu og synti mjög vel í morgun. Hún á síðan eftir að synda 50 metra skriðsund á morgun og með boðsundssveit Íslands á sunnudaginn.
Brasilíska sundkonan Daynara De Paula var síðust inn í undanúrslitin en hún synti á 26,49 sekúndum og það munaði því mjög litlu að Bryndís kæmist í undanúrslitin.
Norðurlandabúar náðu tveimur bestu tímunum í undanrásunum. Hin sænska Sarah Sjöström var með besta tímann (25,43 sekúndur) og hin danska Jeanette Ottesen synti á 25,51 sekúndu.
Sjöström á heimsmetið í greininni en hefur endað í 4. sæti í 50 metra flugsundi á síðustu tveimur Heimsmeistaramótum.

