Hún vann með poppstjörnunni Taylor Swift í myndbandi við lagið hennar Blank Space, af nýjustu plötunni hennar 1989. „Ég hef unnið töluvert mikið með Kahn, en hann hefur leikstýrt yfir fimm hundruð tónlistarmyndböndum erlendis. Hann meðal annars fékk MTV Europe Icon-verðlaunin fyrir vinnu sína í tónlistarbransanum.“
Hún segir það hafa verið mjög gaman að vinna með Swift og hún og allt hennar teymi hafi verið einstaklega faglegt. „Það er alltaf mikið af fólki með í ákvarðanatökum fyrir verkefni af svona stærðargráðu. Fyrir Taylor í þessu tilfelli snerist þetta líka mikið um að koma með nýja ímynd fyrir hana, án þess að það hefði áhrif á aðdáendahóp hennar,“ bætir hún við.

Nýlega vann hún með fatahönnuðinum Bernhard Wilhelm fyrir stóra sýningu á MOCA-safninu í Los Angeles. „Núna fyrir stuttu vann ég með Kahn að Power Ranger-stuttmynd. Sú stuttmynd varð svo vinsæl að síðan hrundi,“ segir hún, en í myndinni léku þau Katee Sackhoff og James Van Der Beek, sem flestir þekkja sem Dawson úr Dawson‘s Creek.
Hún hefur lítið unnið hér heima og segir það mjög ólíkt að vinna hér og úti. „Verkefnin úti eru stór og oft er mikið fjármagn að baki. En hér heima er svo mikið af spennandi hæfileikaríku fólki sem er svo opið og tilbúið að prófa allavega hluti.“

Sýningin verður haldin í Vörðuskóla á Skólavörðuholti í kvöld og er hluti af HönnunarMars.
Húsið verður opnað klukkan 21 og sýning hefst klukkan 21.30. „Það verður eitthvað þarna fyrir alla, hvort sem þú hefur áhuga á tónlist, dansi, arkitektúr, tísku eða töfrum.“