Rosberg hefur nú unnið sjö keppnir í röð og leiðir heimsmeistarakeppni ökumanna með 43 stigum. Hamilton tókst að berjast úr 10. sæti upp í annað.
Sebastian Vettel datt út á fyrsta hring eftir samstuð við heimamanninn Daniil Kvyat á Red Bull. Nico Hulkenberg datt út líka á fyrsta hring á Force India, liðsfélagi hans, Sergio Perez þurfti að koma inn eftir fyrsta hring með sprungið dekk.
Kvyat ók tvisvar á Vettel í fyrstu tveimur beygjunum. Fyrst beint aftan á Vettel og svo aftur einni beygju seinna. Vettel var allt annað en sáttur.
„Það var keyrt tvisvar aftan á mig, hvað í fjandanum er í gangi hérna,“ sagði Vettel í talstöðinni.
Kimi Raikkonen náði að komast fram úr landa sínum Valtteri Bottas í ræsingunni og þegar öryggisbíllinn fór inn var Rosberg fremstur með Raikkonen fyrir aftan sig og Bottas fyrir aftan hann. Bottas stal öðru sætinu af Raikkonen í endurræsingunni og Hamilton kom sér upp í fjórða sæti.
Hamilton stal þriðja sætinu af Raikkonen á sjöunda hring. Raikkonen hafði reynt að taka annað sætið af Bottas og missti við það taktinn og Hamilton nýtti sér það.

Raikkonen tókst svo að smeygja sér á milli Bottas og Hamilton eftir sitt þjónustuhlé á hring 20.
Þegar Rosberg hafði tekið sitt þjónustuhlé var bilið á milli Hamilton og Rosberg um 13 sekúndur.
Baráttan um áttunda sæti var mjög spennandi, Kevin Magnussen, Romain Grosjean, Daniel Ricciardo og Carlos Sainz börðust af hörku.
Vélin gaf sig í bíl Max Verstappen á hring 35.
Hamilton minnkaði bilið niður í 7 sekúndur með góðum hringjum í kringum hring 35. Um leið og allt fór að líta vel út fyrir Hamilton fékk hann að vita af vatnsþrýstingsvandamáli í bílnum. Rosberg svaraði þá með því að setja hraðasta hring keppninnar og nýtt brautarmet á Sochi brautinni. Bilið á milli þeirra tók að aukast aftur í kjölfar skilaboðanna til Hamiltons um að passa þrýstinginn.
McLaren endaði með báða bílana í stigasæti í fyrsta skipti á tímabilinu.
Hér fyrir neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar.