Í kærunni vegna Nordea er bankinn sakaður um að hafa verið notaður til þess að þvo á þriðja hundruð milljóna dollara illa fengins fjár úr stóru fjársvikamáli í Rússlandi. Féð hafi runnið í gegnum 365 reikninga í Nordea-bankanum.
Kærandinn er Bill Browder, forstjóri Hermitage-fjárfestingasjóðsins. Endurskoðandi hans, Sergei Magnitskí, var barinn til ólífis í rússnesku fangelsi eftir að hann fletti hulunni ofan af fjársvikunum. Browder er ötull gagnrýnandi stjórnvalda í Kreml.
Financial Times segir að Browder hafi látið sænska saksóknara fá gögn sem kalli á rannsókn á mögulegum fjársvikum, fölsunum, peningaþvætti og óheiðarlegum vinnubrögðum Nordea. Saksóknararnir ætli að rannsaka málið.
Dönsk yfirvöld höfnuðu því að rannsaka ásakanir Browder á hendur Nordea árið 2003. Browder segist í millitíðinni hafa fengið nýjar upplýsingar frá rannsóknum í Litháen og Frakklandi sem hafi gert honum kleift að kæra bankann aftur.
Segjast hafa bætt eftirlit sitt
Fjármálaeftirlit Svíþjóðar lagði hámarkssekt á Nordea árið 2015 fyrir slælegt eftirlit. Miklar líkur hefðu verið á því að óprúttnir aðilar hefðu getað notað bankann til þess að þvo fé eða fjármagna hryðjuverkastarfsemi án þess að hann hefði orðið þess var.Danske bank hefur verið í kreppu undanfarin misseri vegna ásakana um stórfellt peningaþvætti sem fór fram í gegnum útibúa bankans í Eistlandi. Bankastjóri Danske bank sagði af sér vegna málsins og bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á meintum brotum.
Talsmenn Nordea segja að bankinn vinni nú náið með yfirvöldum. Bankinn hafi fjárfest mikið í að styrkja eftirlit með peningaþvætti og millifærslum undanfarin ár.

Stórfelldur þjófnaður rússneskra embættismanna
Fjársvikin sem Magnitskí afhjúpaði voru stórfelld. Hann var endurskoðandi lögmannsstofu í Moskvu þegar hann komst á snoðir um að embættismenn rússneska skattsins og lögreglumenn hefðu stolið jafnvirði 230 milljóna dollara.Það var hins vegar Magnitskí sjálfur sem var handtekinn eftir að hann tilkynnti um brotin árið 2008. Hann var sakaður um að hafa aðstoðað við skattaundanskot. Hann lést af völdum barsmíða í fangelsi í nóvember árið 2009, aðeins 37 ára að aldri.
Magnitskí vann með Browder við að afhjúpa spillingu í Rússlandi. Hermitage hafði verið einn stærsti fjárfestingasjóðurinn í Rússlandi en þarlend yfirvöld ógiltu landvistarleyfi Browder eftir að hann setti fram ásakanir um stórfellda spillingu háttsettra embættismanna.
Mál Magnitskí vakti heimsathygli. Þegar Bandaríkjaþing samþykkti refsiaðgerðir gegn rússneskum embættismönnum sem eru sekir um mannréttindabrot árið 2012 voru lögin kennd við Magnitskí.