„Það er erfiðara að sinna fjölskyldu, vinum, félagslífi með skólanum af því að þetta er orðin 130% vinna. Auðvitað er vinna að vera í framhaldsskóla, algjörlega ég er til í það, en ekki 130% vinnu. Af því ég vil eiga félagslíf,“ segir Bertha Lena.
Fyrst í ágúst og aftur í síðustu viku sendi hún bréf til yfirvalda þar sem hún lýsir upplifun sinni af styttingu námsins. „Ég sendi á menntamálaráðuneyti og Menntamálastofnun. Menntamálastofnun hringdi í mig en sagði að þetta væri ekki undir þeim komið þannig að ég er búin að hafa tvisvar sinnum samband við menntmálaráðuneytið og menntamálaráðherra en hef ekki fengið nein svör.“
Hún telur skjóta skökku við að talað sé um styttingu námsins þegar í raun sé bara verið að þjappa því saman. Þá segir hún flesta samnemendur sína sem hún þekkir til, ekki sjá fram á að ljúka námi á þremur árum heldur á þremur og hálfu eða fjórum. „Ég er á þriðja ári og ég á að eiga bara eitt ár eftir en það er spurning hvort maður nái því en ég er að stefna að því að ná því á þremur,“ segir Bertha Lena. „Það er enginn afsláttur gefinn, það erum við sem þurfum að gefa afsláttinn. Það er svona frekar leiðinlegt.“