Þegar 14 umferðum er lokið í Olís-deild karla hefur aðeins eitt lið fengið á sig fleiri mörk en Íslandsmeistarar Selfoss. Þá er Selfoss með slökustu hlutfallsmarkvörsluna í deildinni. Ekkert lið hefur hins vegar skorað fleiri mörk að meðaltali í leik en meistararnir.
Selfoss tapaði fyrir Val á heimavelli í gær, 31-33. Þetta er í áttunda sinn í vetur sem Selfyssingar fá á sig 30 mörk eða meira í leik.
Selfoss hefur fengið á sig 30,5 mörk að meðaltali í leik á tímabilinu. Aðeins nýliðar Fjölnis, sem eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar, hafa fengið á sig fleiri mörk, eða 30,6.
Á síðasta tímabili fékk Selfoss á sig 26,3 mörk að meðaltali í leik en tveggja af sterkustu varnarmönnum liðsins í fyrra nýtur ekki lengur við. Elvar Örn Jónsson fór til Skjern í sumar og þá sleit Sverrir Pálsson krossband í hné.
Markvarslan er einnig lakari en á síðasta tímabili. Í vetur eru markverðir Selfoss aðeins með 26,7% hlutfallsmarkvörslu að meðaltali í leik. Fjölnir og KA eru með næstslökustu markvörsluna, 27,8%, samkvæmt HB Statz.
Á síðasta tímabili, bæði í deild og úrslitakeppni, var markvarsla Selfyssinga 30,1%.
Selfyssingar geta þó lítið kvartað yfir sóknarleiknum það sem af er tímabili. Þeir hafa skorað mest í deildinni, 30,8 mörk að meðaltali í leik, og eru með bestu skotnýtinguna, 63,6%.
Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 17 stig, sex stigum á eftir toppliði Hauka.

Flest mörk á sig að meðaltali:
Fjölnir - 30,6
Selfoss - 30,5
HK - 29,4
KA - 28,9
ÍR - 27,9
FH - 27,7
Stjarnan - 27,1
ÍBV - 26,8
Fram - 26,1
Afturelding - 25,6
Haukar - 25,4
Valur - 23,8
Slakasta hlutfallsmarkvarslan:
Selfoss - 26,7%
Fjölnir - 27,8%
KA - 27,8%
ÍBV - 29,3%
Stjarnan - 29,4%
HK - 30,8%
Fram - 31,1%
Afturelding - 31,7%
FH - 32,1%
ÍR - 34,8%
Haukar - 35,7%
Valur - 36,4%