Leikir kvöldsins í Domino‘s deild karla í körfubolta fara fram eins og áætlað var. Það sama má segja um leik Keflavíkur og Snæfells í Domino‘s deild kvenna á morgun. Þetta staðfesti Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi.
Samkomubann tekur gildi aðfaranótt mánudags og KKÍ hefur ákveðið að aflýsa leikjum í neðri deildum karla og yngri flokkum frá og með morgundeginum.
Fulltrúar sérsambanda ÍSÍ funduðu í hádeginu og munu funda aftur síðdegis með fulltrúum sóttvarnalæknis og almannavarna.
„Við þurfum frekari upplýsingar og erum að bíða eftir þeim. Þetta kom ekki nógu skýrt fram á blaðamannafundinum í morgun,“ sagði Hannes við Vísi.
Eins og áður sagði fara tveir leikir fram í Domino‘s deild karla í kvöld. Klukkan 18:30 hefst leikur Þórs og Grindavíkur á Akureyri og klukkan 20:15 mætast Keflavík og Þór Þ. suður með sjó.
Leikirnir verða báðir sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og klukkan 22:10 hefst svo Domino‘s Körfuboltakvöld. Leikir kvöldsins verða einnig í beinni textalýsingu á Vísi.